Erlent

Munu aðeins beita kjarnorkuvopnum í sjálfsvörn

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu segir að ríkið sé ábyrgt kjarnorkuvopnaríki.
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu segir að ríkið sé ábyrgt kjarnorkuvopnaríki. Vísir/AFP
Leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-un, segir að yfirvöld þar í landi muni einungis beita kjarnorkuvopnum verði fullveldi ríkisins ógnað. Þá segist Kim Jon-un vera reiðubúinn til þess að bæta samskipti Norður-Kóreu við önnur ríki.

Þetta kom fram í máli leiðtogans á sjaldgæfu flokksþingi sem nú stendur yfir í Norður-Kóreu, því fyrsta sem haldið hefur verið frá árinu 1980.

Sagði Kim Jong-un að Norður-Kórea væri ábyrgt kjarnorkuvopnaríki sem myndi ekki beita kjarnorkuvopnum sínum nema fullveldi ríkisins væri ógnað af óvinaríkjum sem hefðu slík vopn undir höndum.

Ríkisfjölmiðillinn í Norður-Kóreu hefur það einnig eftir Kim Jong-un að hefja ætti aukin samskipti við Suður-Kóreu með það að markmiði að að byggja upp traust á milli ríkjanna sem eldað hafa grátt silfur saman um áratuga skeið.

Árið 2003 sögðu Norður-Kóreumenn sig frá alþjóðasamningum sem koma eiga í veg fyrir útbreiðslu kjarnorkuvopna í heiminum. Þremur árum síðar sprengdi ríkið sína fyrstu kjarnorkusprengju.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×