Lífið

Mundi vilja verða dýrahirðir

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
 "Ég vil eiga heima bæði í sveit og í Reykjavík,“ segir Iðunn sem hér klifrar í stóru tré inni í Sundum.
"Ég vil eiga heima bæði í sveit og í Reykjavík,“ segir Iðunn sem hér klifrar í stóru tré inni í Sundum. Fréttablaðið/Eyþór
Iðunn Ægisdóttir er átta ára og er að verða níu ára í nóvember. Hún á heima í Reykjavík, gengur í Langholtsskóla og finnst skemmtilegast í skrift og íþróttum. Svo skreppur hún í heimsóknir norður á Strandir og þar var hún um síðustu helgi.

Hvað varstu að bralla þar?

Ég fór í smalamennsku bæði í Árneshreppi og í Bæ 1 á Selströnd hjá ömmu og afa.

Labbaðir þú langt?

Nei, ég labbaði ekkert svo mikið, en ég fann ber á leiðinni.

Hjálpaðir þú til að draga kindur í réttinni?

Já, við pabbi drógum nokkrar kindur saman, það var gaman.

Hvað brallaðir þú fleira þarna fyrir norðan?

Ég var mikið úti að leika, fór í berjamó, gaf hænuungum að borða, henti steinum út í á og fór í heitu pottana á Drangsnesi.

Hvað fannst þér skemmtilegast við ferðina?  

Það var bara allt skemmtilegt.

Ferðu oft norður?

Já, ég fer mjög oft í heimsókn til ömmu og afa sem eiga heima rétt hjá Drangsnesi en ekki eins oft í Árneshreppinn.

Gætir þú hugsað þér að eiga heima í sveit?

Já, ég vil eiga heima bæði í sveit og í Reykjavík.

Hvað langar þig að verða þegar þú verður stór?

Ég mundi vilja verða dýrahirðir og vinna í Húsdýragarðinum.



Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 24. september 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×