Erlent

Munar hálfu prósenti

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
"Fyrir fimm árum drakk hann úr ykkur blóðið. Nú er kominn tími til að segja nei,“ segir á þessu veggspjaldi með mynd af Wolfgang Schaeuble, fjármálaráðherra Þýskalands.
"Fyrir fimm árum drakk hann úr ykkur blóðið. Nú er kominn tími til að segja nei,“ segir á þessu veggspjaldi með mynd af Wolfgang Schaeuble, fjármálaráðherra Þýskalands. nordicphotos/afp
Samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem gríska dagblaðið Proto Thema birti í gær hyggjast 41,7 prósent Grikkja kjósa að samþykkja skilmála lánardrottna Grikkja í þjóðaratkvæðagreiðslu á sunnudaginn. 41,1 prósent hyggst hafna þeim. Skekkjumörk sem aðstandendur könnunarinnar gefa eru þrjú prósent þannig að ljóst er að allt getur gerst á sunnudag.

Hæstiréttur Grikklands úrskurðaði atkvæðagreiðsluna löglega í gær en efast var síðustu daga um að hún væri í samræmi við stjórnarskrá.

Alexis Tsipras forsætisráðherra nýtti tækifærið í gær og ávarpaði þjóð sína í sjónvarpi. Tsipras hvatti Grikki til þess að hafna því sem hann kallaði kúgun lánardrottna ríkisins.

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði hins vegar að höfnun myndi veikja samningsstöðu Grikklands til muna í viðræðum um nýjan samning um neyðaraðstoð.

Þegar þátttakendur voru spurðir hvort þjóðaratkvæðagreiðslan væri góð hugmynd svöruðu 42 prósent játandi en um 48 prósent neitandi.

Þátttakendur voru einnig spurðir um hvort þeir vildu að Grikkland myndi áfram vera meðlimur í evrusvæðinu. Yfirþyrmandi meirihluti svaraði þeirri spurningu játandi, 76 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×