Enski boltinn

Mun Gylfi refsa sínu gamla liði?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Vísir/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson verður í sviðsljósinu í kvöld þegar hann mætir á sinn gamla heimavöll í Wales, þegar Swansea tekur á móti Everton.

Gylfi fór eins og frægt er til Everton í sumar fyrir 45 milljónir punda og varð um leið dýrasti leikmaður félagsins. Hann byrjaði af krafti með marki frá miðju í Evrópuleik gegn Hajduk Split en átti erfitt uppdráttar framan af tímabili í ensku úrvalsdeildinni, rétt eins og aðrir leikmenn Everton.

Sjá einnig:Gylfi á skotskónum í fyrsta leik Allardyce

Svo illa gekk að Ronald Koeman var látinn fara og Sam Allardyce ráðinn í hans stað. Everton hefur undir hans stjórn spilað betur, fengið tíu stig af tólf mögulegum í síðustu leikjum og náð að lyfta sér um leið úr fallslagnum og upp í miðja deild.

Sam Allardyce segir að staða Gylfa sé skiljanleg. Hann fékk ekkert undirbúningstímabil í sumar og var lengi í sviðsljósinu vegna yfirvofandi félagaskipta sinna til Everton, sem tók mjög langan tíma að fá í gegn. Þá sé allt annað mál að spila fyrir Everton en Swansea.

Gylfi Þór.Vísir/Getty
Krafan meiri hjá Everton

„Með fullri virðingu fyrir Swansea. En hjá Everton ertu að spila á mun stærra sviði. Maður verður að vera með sterkari bein því krafan um að spila vel er stærri hjá Everton,“ sagði Allardyce.

Adam Bate, sérfræðingur Sky Sports, skoðar stöðu Gylfa hjá Everton og stöðu Swansea án Gylfa í ítarlegri úttekt sem birtist í dag.

Sjá einnig: Gylfi: Það kom neisti með Allardyce sem ég hlakka til að starfa með

Swansea situr í neðsta sæti ensku deildarinnar og er því í sömu vandræðum og liðið var í stærstan hluta síðasta tímabils. Munurinn er hins vegar sá að Gylfi leysti félagið úr snörunni á vormánuðum en félaginu hefur gengið illa að finna verðugan eftirmann hans.

Eftirmaður Gylfa ekki fundinn


Bate bendir á að Swansea sé búið að skora aðeins níu mörk í ár en á þessum tímapunkti í fyrra var Gylfi kominn með fimm mörk og fimm stoðsendingar fyrir hvítklæddu svanina. Renato Sanches, sem kom í haust sem lánsmaður frá Bayern München, hefur helst unnið sér það til frægðar að gefa á auglýsingaskilti í leik gegn Chelsea í síðasta mánuði. Hann hefur ekki enn skorað fyrir Swansea í deildinni, né heldur gefið stoðsendingu.

Bate fjallar einnig um föstu leikatriðin hans Gylfa, sem Swansea saknar sárt, sem og hvernig Everton getur nýtt sér þau enn betur en liðið hefur gert hingað til á tímabilinu.

Hér fyrir neðan má sjá myndband um leikinn í kvöld sem hefst klukkan 20.00 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.


Tengdar fréttir

Gylfi og félagar fá ekkert jólapartí

Sam Allardyce, knattspyrnustjóri Everton, hefur slegið árlegan jólafögnuð leikmanna liðsins af. Hann segir að liðið verði að koma sér í betri stöðu áður en það fagni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×