Erlent

Mun gera Bandaríkjaþingi kleift að herða refsiaðgerðir gegn Rússum

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. Vísir/afp
Leiðtogar Demókrata og Repúblikana á bandaríska þinginu hafa komist að samkomulagi um lagabreytingar sem gerir þinginu kleift að herða refsiaðgerðir gegn Rússum vegna afskipta þeirra af forsetakosningunum á síðasta ári.

Breytingarnar takmarka einnig getu Donalds Trump Bandaríkjaforseta til að draga úr þessum aðgerðum, en forsetinn hefur áður lýst því yfir að hann þurfi svigrúm til að eiga við rússnesk stjórnvöld.

Ráðgjafar Trump hafa verið sakaðir um að hafa átt í samskiptum við rússneska embættismenn í aðdraganda kosninganna á síðasta ári og standa nú yfir nokkrar rannsóknir á málinu.

Rússnesk stjórnvöld hafa hins vegar vísað því á bug að þau hafi reynt að hafa áhrif á úrslit forsetakosninganna á síðasta ári.

Fréttaskýrendur segja að samkomulagið á þinginu bendi til að þingið ætli sér að standa á sínu í samskiptum við Rússa, sama hvað Trump gerir.

Í frétt BBC segir að forsetinn gæti beitt neitunarvaldi gegn frumvarpinu, en myndi hann ákveða að fara þá leið myndi það styrkja þá skoðun margra að Trump og nánstu samstarfsmenn hans séu of nánir Rússlandsstjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×