Innlent

Mun dreyma hróka og riddara næstu nætur

Jakob Bjarnar skrifar
Hrafn gerir ráð fyrir því að mæta 200 skákmönnum um næstu helgi.
Hrafn gerir ráð fyrir því að mæta 200 skákmönnum um næstu helgi.
Skákfélagið Hrókurinn stendur fyrir Skákmaraþoni í Hörpu föstudaginn 6. mars og laugardaginn 7. mars til að styðja við söfnun Fatimusjóðs og UNICEF á Íslandi í þágu skólahalds fyrir sýrlensk flóttabörn.

Prímusmótor í hinum sérstæða skákklúbbi Hróknum, er Hrafn Jökulsson. Hrókurinn var stofnaður af Hrafni á Grandrokk, utan um áhugamál nokkurra kaffihúsaskákmanna; en fljótlega bættust hörkuskákmenn í hópinn. Hrókurinn gæddi skáklíf landsmanna nýju lífi, því klúbburinn skráði sig til leiks á Íslandsmótið; gerði sér lítið fyrir og fór úr 4. deild, rakleiðis uppí þá 1. og urðu Íslandsmeistarar; unnu öruggan sigur á Íslandsmóti skákfélaga árið 2002 með 47½ vinn­ing af 56 mögu­leg­um. Þetta er undraverð saga, öflugustu skákmenn landsins, heima og heiman, gengu til liðs við Hrókinn, en þegar félagið var á toppi tilverunnar, ef svo má að orði komast, venti Hrókurinn kvæði sínu í kross og tók að einbeita sér alfarið af skáktrúboði á Grænlandi og allskyns góðgerðarstarfsemi.

Og, nú er teflt fyrir sýrlensk flóttabörn. Hrafn vonast til þess að tefla um 200 skákmenn. „Áskorendur koma úr öllum áttum, jafnt meistarar sem byrjendur. Það verður vel tekið á móti öllum,“ segir Hrafn í samtali við Vísi.

Þú hefur áður teflt skákmaraþon, hvernig gekk það?

„Ég hef þrisvar teflt maraþon áður, síðast 2006, mest 250 skákir. Kannski tekst mér að slá það persónulega met, en aðalmarkmið mitt er að vekja athygli á söfnun Fatimusjóðs og Unicef í þágu sýrlensku flóttabarnanna. Ef það tekst er tilganginum náð, hvað svo sem gerist á skákborðinu.“

En, eru menn ekki algerlega búnir eftir slíka rispu, þetta hlýtur að taka á?

„Mér finnst náttúrlega stórkostlega skemmtilegt að tefla, svo ég hlakka mikið til. En jú, ég býst við að verða þokkalega úrvinda þegar upp er staðið og býst við því að mig dreymi riddara, hróka og biskupa fram eftir næstu viku.“

Hrafn segir að ýmsir sterkir skákmenn hafa meldað sig; „og ég mun skora sérstaklega á alla stórmeistarana okkar að mæta. En þarna verður fólk úr öllum áttum, eins og hæfir, því kjörorð skákhreyfingarinnar eru ,,Við erum ein fjölskylda“. Ég hvet alla til að kíkja við í Hörpunni, taka eina bröndótta eða bara fylgjast með, og leggja sýrlensku börnunum lið.“

Hrafn leggur á það áherslu að öllum sé velkomið að mæta í Hörpuna og spreyta sig. Hrafn teflir við einn áskoranda í senn og mun samtals sitja að tafli í 30 klukkustundir. Skákkunnátta er algert aukaatriði og byrjendur fá tilsögn í taflinu hjá Hrafni og liðsmönnum Hróksins í Hörpu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×