Enski boltinn

Moyes gengur stoltur frá borði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
David Moyes er þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að stýra Manchester United en viðurkennir að hann hafi sjálfur verið pirraður á gengi liðsins.

Moyes var í gærmorgunn rekinn úr starfi knattspyrnustjóra United eftir aðeins tíu mánuði í starfi.

„Ég verð alltaf ákaflega stoltur af því að hafa verið ráðinn knattspyrnustjóri eins stærsta fótboltafélags heims,“ sagði Moyes í yfirlýsingu sinni sem birt var í dag.

Hann sagði enn fremur að það hefði verið ljóst frá fyrsta degi að það væri mikil áskorun að taka við liði sem hefði búið við mikinn stöðugleika og velgengni í langan tíma.

Moyes tók við starfinu af Alex Ferguson sem hætti síðastliðið vor eftir að hafa stýrt United í 27 ár. Honum tókst ekki að fylgja eftir góðum árangri Ferguson síðastliðin ár.

„Við höfðum einsett okkur að gera þær breytingar sem þurfti að gera á leikmannahópnum. Um leið þurfti liðið að standa sig vel í úrvalsdeildinni og Meistaradeildinni.“

„Úrslitin og frammistaða liðsins voru hins vegar ekki í samræmi við það sem stuðningsmenn Manchester United eiga að venjast eða búast við. Ég skil vel gremju þeirra og deili henni.“

Yfirlýsingu Moyes má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×