Enski boltinn

Mourinho seldi Mata frá Chelsea til United og ætlar líka að losa hann núna

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Juan Mata er á útleið.
Juan Mata er á útleið. vísir/getty
Juan Mata og Daley Blind verða báðir seldir frá Manchester United í sumar en þeir eru ekki í framtíðaráforum José Mourinho á Old Trafford. Þetta hefur Sky Sports eftir heimildum.

Mourinho er sagður tilbúinn til að selja bæði hollenska varnarmanninn og spænska miðjumanninn berist sómasamleg tilboð í þá en hann ætlar sér að kaupa leikmenn sem fylla í þeirra skörð.

José Mourinho var knattspyrnustjóri Chelsea þegar félagið seldi Juan Mata til Manchester United í janúar 2014 en aðeins sex mánuðum áður var hann valinn leikmaður ársins hjá Chelsea annað árið í röð.

Mourinho var óánægður með vinnuframlag Mata á vellinum og þá fannst honum Spánverjinn ekki passa inn í skipulag sitt. Sky Sports telur sig hafa heimildir fyrir því að Portúgalinn sé enn á sömu skoðun.

Daley Blind, sem kostaði Manchester United fjórtán milljónir punda, er sagður ekki vera nógu líkamlega sterkur. Mourinho vill hafa mun sterkari miðverði í sínu liði en Hollendingurinn spilaði stærstan hluta síðasta tímabils sem miðvörður og stóð sig vel.

Mourinho mætti á Carrington, æfingasvæði Manchester United, í gær og er nú þegar byrjaður að vinna í leikmannamálum. Ljóst er að hópurinn mun breytast töluvert ætli Mourinho að ná sínum leikstíl fram á Old Trafford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×