Enski boltinn

Mourinho plataður af ítölskum sjónvarpsmönnum: Áritaði United treyju merkta Conte

Magnús Ellert Bjarnason skrifar
Mourinho skælbrosandi á æfingu United í hitanum í Dubai.
Mourinho skælbrosandi á æfingu United í hitanum í Dubai. Vísir / Getty Images
Líkt og Vísir hefur greint frá ríkir ekki mikill kærleikur milli þeirra Jose Mourinho, stjóra Manchester United, og kollega hans Antonio Conte, stjóra Chelsea. Hafa þeir átt í orðastríði síðustu vikur og ekki sparað stóru orðin.

Þar á meðal hefur Mourinho gefið til kynna að Conte hafi hagrætt úrslitum leikja þegar hann var þjálfari Sienu á Ítalíu, og Conte sakað Mourinho um að vera „fake“ smámenni sem þjáist af minnisleysi.

Alessandro Onnis og Stefanio Corti, tveir ítalskir grínarar og sjónvarpsmenn, sáu sér leik á borði í vikunni og gerðu góðlátlegt grín af þessu orðastríði stjóranna. ESPN segir frá.

Þóttust þeir vera blaðamenn og fengu Mourinho í viðtal fyrir utan Lowry Hótelið í Manchester, þar sem lið United dvelur fyrir leiki. Þríeykið spjallaði stuttlega saman áður en þeir Onnis og Corti báðu Mourinho um að árita Manchester United treyjuna sem þeir höfðu tekið með í viðtalið.

Að því loknu var Mourinho beðinn um að snúa treyjunni við og sýna áhorfendum heima hvað stæði aftan á treyjunni. Kom þá í ljós að treyjan var merkt engum öðrum en fyrrnefndum Conte.

Sem betur fer tók Mourinho vel í þetta grín ítölsku sjónvarpsmannana og brosti að uppátæki þeirra, líkt og sjá má að neðan, áður en hann hélt aftur inn á hótel.






Tengdar fréttir

Conte: Mourinho er smámenni

Orðastríð knattspyrnustjóranna Antonio Conte og Jose Mourinho heldur áfram. Stjórarnir hafa skipst á að skjóta á hvorn annan í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×