Enski boltinn

Mourinho fær grænt ljós frá Abramovich

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jose Mourinho, stjóri Chelsea.
Jose Mourinho, stjóri Chelsea. Vísir/Getty
Jose Mourinho hefur fengið leyfi til að stilla upp varaliði í leik Chelsea gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Þetta var staðhæft í enskum fjölmiðlum í gærkvöldi en Mourinho vill hvíla sína bestu menn fyrir síðari viðureignina gegn Atletico Madrid í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í næstu viku.

Liverpool getur með sigri um helgina tekið risastórt skref í átt að meistaratitlinum en Mourinho er óánægður með að leikurinn skuli fara fram á sunnudag - aðeins þremur dögum fyrir leikinn mikilvæga gegn Atletico.

Mourinho sagði eftir fyrri leikinn, sem lauk með markalausu jafntefli, að hann myndi helst vilja skipta út öllu byrjunarliðinu en að það væri ekki í hans höndum. Svo virðist sem að Roman Abramovich, eigandi Chelsea, sé sömu skoðunar.

Liverpool er með 80 stig á toppi deildarinnar, fimm stigum á undan Chelsea þegar þrjár umferðir eru eftir. Manchester City er svo með 74 stig í þriðja sætinu en á leik til góða.

Árið 2011 var Blackpool refsað af forráðamönnum ensku úrvalsdeildarinnar fyrir að tefla fram gerbreyttu liðið í deildarleik en síðan þá hafa reglur um þetta verið mildaðar.

Frank Lampard og John Obi Mikel verða báðir í banni í seinni leiknum gegn Atletico og gætu því spilað um helgina. Nemanja Matic og Mohamed Salah sömuleiðis því þeir eru ekki gjaldgengir með Chelsea í Evrópuleikjum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×