Enski boltinn

Mourinho brjálaður út í enska knattspyrnusambandið

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Mourinho á líklega eftir að kvarta meira á næstunni um þetta mál.
Mourinho á líklega eftir að kvarta meira á næstunni um þetta mál. vísir/getty
Jose Mourinho, stjóri Man. Utd, er æfur út í þá ákvörðun enska knattspyrnusambandsins að hafa sett leik síns liðs í enska bikarnum gegn Chelsea á milli leikja liðsins í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

„Þetta er fáranlegt því það veit enginn núna hvar við munum spila. Hvort við byrjum heima eða úti. Ímyndið ykkur ef við spilum við Chelsea á mánudegi og þurfum svo að fara í seinni leik í Rússlandi, Tyrklandi eða Grikklandi,“ sagði Mourinho reiður.

„Þarna er verið að taka fram fyrir hendurnar á ensku liði í stað þess að vinna með því. Öllum er sama og þetta er bara staðan.“

Mourinho segist þó ekki ætla að gera eins og Man. City gerði í fyrra og ljóst að leikmenn verða að bíta á jaxlinn í miklu leikjaálagi.

„Ég get ekki mætt Chelsea með varaliðið mitt eins og Man. City gerði í fyrra. Ég get ekki gert það. Við erum Man. Utd,“ sagði Portúgalinn og skaut létt á nágrannaliðið.

„Sem stjóri Man. Utd geri ég ekki slíkt og ég geri það ekki heldur gagnvart ensku bikarkeppninni. Enska bikarkeppnin er falleg keppni. Söguleg keppni og ég þarf að koma rétt fram við keppnina og stuðningsmenn félagsins. Auðvitað mun ég þurfa að skipta út mönnum en einhverjir leikmenn munu þurfa að spila alla þessa leiki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×