Enski boltinn

Mourinho algjörlega á móti vináttuleikjum: „Við erum í vandræðum“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
José Mourinho er ekki aðdáandi landsleikjaviku.
José Mourinho er ekki aðdáandi landsleikjaviku. vísir/getty
José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, segist vera algjörlega á móti vináttulandsleikjum eftir að hann missti báða ensku landsliðsmiðverðina sína; Chris Smalling og Phil Jones, í meiðsli á síðustu dögum.

Jones neyddist til að yfirgefa herbúðir enska landsliðsins í síðustu viku vegna meiðsla á tá sem hann hlaut eftir tæklingu liðsfélaga síns hjá United, Chris Smalling. Smalling sjálfur dró sig svo sjálfur úr hópnum vegna meiðsla á fæti eftir vináttuleikinn á móti Þýskalandi.

„Ég er algjörlega á móti vináttulandsleikjum. Mér finnst bara eðlilegt að spila vináttulandsleiki í lokaundirbúningi fyrir stórmót,“ segir Mourino í Soccer Saturday á Sky Sports.

„Það er eðlilegt að spila vináttuleiki nokkrum vikum fyrir Evrópumót eða heimsmeistaramót en að spila vináttuleiki í bland við leiki í undankeppni stórmóta er óskiljanlegt. Þessir leikir eru ekki einu sinni stórir þannig ég er enginn aðdáandi.“

Þrettán leikmenn Manchester United spiluðu landsleiki á síðustu dögum en Antonio Valencia, Marcos Rojo og Sergio Romero þurftu að fljúga hina löngu leið til Suður-Ameríku. Undirbúningur Manchester United og WBA, sem lærisveinar Mourinho mæta um helgina, er því ólíkur.

„Ég skil ekki einu sinni hvernig báðir miðverðirnir okkar meiddust fyrir leik enska liðsins. Leikurinn var á sunnudegi en þeir meiddust á æfingu. Við misstum fjóra í meiðsli en svo held ég að Pogba sé líka meiddur þannig það eru fimm. Við erum í vandræðum,“ segir José Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×