Enski boltinn

Mourinho ætlar ekki að kaupa fleiri leikmenn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mourinho á blaðamannafundinum í hádeginu.
Mourinho á blaðamannafundinum í hádeginu. vísir/getty
José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að félagið sé búið að ljúka sér af í félagaskiptaglugganum sem lokar um mánaðarmótin.

Mourinho er búinn að kaupa fjóra leikmenn í sumar og ef marka má orð hans á blaðamannafundi í dag verða þeir ekki fleiri.

„Þetta verður mjög róleg vika hjá okkur. Það verða engar þyrlur að fylgjast með því hverjir koma og fara. Ég er meira en ánægður með hópinn sem ég er með,“ sagði Mourinho.

„Ég er með 23 leikmenn í hópnum og geri ekki ráð fyrir frekari breytingum á honum. Ég er með meira en nóg af leikmönnum og ef það koma upp vandræði eða möguleikar mun ég glaður nota leikmenn úr unglingastarfinu.“

Mourinho var einnig spurður út í þýska miðjumanninn Bastian Schweinsteiger sem gaf það út á dögunum að hann væri ekki á förum frá United. Mourinho segir ekki miklar líkur á því að Þjóðverjinn spili fyrir United í vetur.

Sjá einnig: Reynsluboltarnir hjá Man Utd voru ósáttir með Schweinsteiger á síðasta tímabili

„Það er mjög ólíklegt að það gerist. Ég er ekki að segja að það sé ómögulegt en það verður erfitt fyrir hann. Pogba, Herrera, Schneiderlin, Fellaini, Carrick. Þetta eru þeir fimm leikmenn sem ég er búinn að ákveða að nota í stöðurnar tvær á miðjunni,“ sagði Mourinho.

Manchester United sækir Hull City í 3. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á morgun.

Leikurinn hefst klukkan 16:30 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 HD.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×