Enski boltinn

Mourinho: Vissi að Koeman yrði frábær hjá Southampton

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Mourinho og Koeman í þjálfarateymi Barcelona árið 1999.
Mourinho og Koeman í þjálfarateymi Barcelona árið 1999. vísir/getty
Það kemur Jose Mourinho ekki á óvart að Ronald Koeman hafi farið vel af stað sem framkvæmdarstjóri Southampton en Chelsea sækir Southampton heim í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport 2 klukkan 14 í dag.

Koeman og Mourinho unnu saman undir stjórn Louis van Gaal hjá Barcelona og þekkjast því mæta vel.

Southampton lyfti sér upp í fjórða sæti ensku úrvalsdeildinnar á annan í jólum en Chelsea er sem fyrr á toppi deildarinnar.

„Ég þekki Ronald vel, við unnum saman. Við vorum samstarfsmenn í þjálfarateymi Barcelona hjá herra Van Gaal,“ sagði Mourinho.

„Ég veit að hann er góður þjálfari og hefur rétt hugarfar. Ég veit hvaða grunnatriði fótboltans hann ver og vill leika.

„Fyrir mér var rétt ákvörðun að ráða hann í starfið í sumar. Ég hugsaði að hann væri rétti maðurinn í starfið,“ sagði Portúgalinn sem hrósaði Koeman fyrir að ná miklu út úr hópnum eftir að hafa misst sterka leikmenn í sumar.

„Þeir misstu góða leikmenn en voru staðfastir í sínum ákvörðunum. Þeir eru með mjög góðan hóp, mjög góðan þjálfara, leika vel og ná góðum úrslitum. Það er engin pressa á liðinu vegna þess að fallbaráttan er mjög, mjög langt í burtu.

„Þeir geta ekki unnið titilinn en þeir eru í frábærri stöðu til að leika góðan fótbolta líkt og liðið gerir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×