Enski boltinn

Mourinho: Við verðum enn betri á næsta tímabili

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho fagnar hér Englandsmeistaratitli Chelsea þegar liðið keyrði um hverfið.
Jose Mourinho fagnar hér Englandsmeistaratitli Chelsea þegar liðið keyrði um hverfið. Vísir/Getty
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, gerði Chelsea að enskum meisturum í fjórða sinn í vetur en þetta er bara upphafið ef marka má orð hans á blaðamannafundi í dag.

„Það er mjög erfitt að vinna ensku úrvalsdeildina, hvað þá að vinna hana tvö ár í röð. Öll stóru liðin í deildinni eru ekki ánægð og munu reyna að gera einhverjar ráðstafanir," sagði Jose Mourinho en Chelsea vann ensku deildina með átta stigum í ár.

Þegar Jose Mourinho var síðast með Chelsea þá náði liðið að vinna tvö ár í röð eða 2005 og 2006.

„Við verðum að vera betri á næsta tímabili en á þessu tímabili. Ef við höldum að svona frammistaða dugi þá munum við koma okkur í erfiða aðstöðu. Við verðum því enn betri á næsta tímabili," sagði Mourinho.

Chelsea komst "bara" í sextán liða úrslitin í Meistaradeildinni þar sem liðið féll út á móti Paris Saint-Germain.

„Við ætlum sérstaklega að reyna að gera betur í Evrópu á næsta tímabili," sagði Mourinho sem býst ekki við að kaupa mikið í sumar.

„Leikmennirnir sem ég er að hugsa um eru mínir leikmenn það er leikmenn sem ég vil halda hjá félaginu. Síðasta sumar vildi ég hinsvegar selja leikmenn. Hvar finn ég betri framherja en Diego Costa? Betri miðjumann en Nemanja Matic? Betri hægri bakvörð en Branislav Ivanovic?," spurði Jose Mourinho blaðamennina og það var fátt um svör.

Frammistaða Mourinho á leikmannamarkaðnum síðasta sumar var lykillinn að sigri liðsins í ensku úrvalsdeildinni í vetur og sú "hreinsun" fer eflaust í sögubækurnar sem eins sú best heppnaða á síðustu árum.

Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×