Enski boltinn

Mourinho: Orð mín voru ætluð Conte en ekki ykkur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Mourinho og Conte eftir leik í dag.
Mourinho og Conte eftir leik í dag. vísir/afp
Stærsta tap Jose Mourinho í ensku úrvalsdeildinni kom á hans gamla heimavelli í dag. Þá valtaði Chelsea yfir lærisveina Mourinho í Man. Utd, 4-0. Hann hefur aðeins einu sinni tapað stærra á ferlinum en það var 5-0 tap gegn Barcelona árið 2010.

„Þetta byrjaði strax mjög illa en við vorum nálægt því að jafna. Svo komast þeir í 2-0,“ sagði Mourinho en Pedro kom Chelsea yfir í leiknum eftir aðeins 29 sekúndur.

Sjá einnig: Chelsea niðurlægði Manchester United

„Við mætum með ákveðna leikáætlun og þá er ekki hægt að fá á sig mark eftir nokkrar sekúndur. Við vildum sækja í dag og sýndum hvað við getum í stöðunni 1-0. Annað og þriðja markið þeirra kemur eftir skyndisóknir. Ef við hefðum minnkað muninn í 2-1 þá hefði þetta orðið annar leikur.“

Stjóri Manchester-liðsins var miður sín út af varnarleik sinna manna.

Sjá einnig: Eiður: José kann ennþá að ná því besta út úr Chelsea

„Við gerðum ótrúleg mistök í vörninni. Einstaklingsmistök og fyrir þau var refsað grimmilega. Við fengum engin stig og erum sex stigum frá toppnum. Nú þurfum við að fara að vinna leiki og saxa á toppliðin.“

Þetta var auðvitað líka sérstakur leikur fyrir Mourinho þar sem hann var á sínum gamla heimavelli. Hann talaði heillengi við Antonio Conte, stjóra Chelsea, í leikslok en vildi ekki gefa upp hvað hann sagði.

„Áhorfendur hegðuðu sér mjög vel. Það sem ég sagði við Conte voru orð sem voru ætluð honum en ekki ykkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×