Enski boltinn

Mourinho: Fótboltinn í dag er uppfullur af Einsteinum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, skaut á gagnrýnendur sína eftir sigur liðsins á Northampton Town í gær og sagði fótboltaheiminn vera uppfullan af Einsteinum.

United vann 1-3 sigur á Northampton í 3. umferð enska deildarbikarsins í gær og batt þar með enda á þriggja leikja taphrinu.

Mourinho og lærisveinar hafa verið harðlega gagnrýndir undanfarna daga en Portúgalinn svaraði gagnrýnendum sínum fullum hálsi eftir leikinn í gær.

„Ég skil vonbrigði stuðningsmannanna fullkomlega en ég er viss um að þeir standa þétt við bakið á liðinu eins og venjulega,“ sagði Mourinho í samtali við MUTV í gærkvöldi.

„Við áttum slæma viku. Ég veit að heimurinn er uppfullur af Einsteinum. Þeir reyndu að eyða síðustu 16 árum af mínum ferli og stórum hluta af sögu Manchester United og einbeittu sér að slæmri viku hjá okkur. En svona er fótboltinn í dag, hann er uppfullur af Einsteinum.“

United dróst gegn erkifjendunum í Manchester City í 4. umferð deildarbikarsins. Næsti leikur Mourinho og félaga er hins vegar gegn Englandsmeisturum Leicester City í hádeginu á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×