Enski boltinn

Mourinho: Drogba sá besti sem ég hef fengið til Chelsea

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Psst; "Þú ert frábær, Didier."
Psst; "Þú ert frábær, Didier." vísir/getty
Didier Drogba, framherji Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta, vill ekki yfirgefa liðið í lok leiktíðar heldur halda áfram að spila með því.

Þessi frábæri Fílabeinsstrendingur, sem spilar nú með Chelsea öðru sinni eftir að hafa yfirgefið liðið 2012, fékk heiðursverðlaun fótboltafréttaritara á Englandi í gær.

Hann spilaði fyrst með Chelsea frá 2004-2012 og skoraði þá 157 mörk í 341 leik í öllum keppnum. Drogba hefur unnið ensku úrvalsdeildina í þrígang með Chelsea, bikarinn fjórum sinnum og Meistaradeildina einu sinni.

„Þegar maður hefur afrekað jafn mikið með einu liði og unnið svona marga titla eins og við höfum gert síðastliðinn áratug verður til eitthvað sérstakt,“ sagði Drogba í viðtali við Sky Sports eftir athöfnina.

„Ég vona að félagið haldi mér í fjölskyldunni og þannig er komið fram við mig. Vonandi finnum við bestu lausnina fyrir báða aðila.“

José Mourinho ávarpaði mannskapinn og upplýsti að kaupin á Didier Drogba frá Marseille fyrir 24 milljónir punda væru þau bestu sem hann hefði gert hjá Chelsea.

„Allan minn feril hef ég alltaf neitað því að segja hver er uppáhaldsleikmaðurinn minn eða besta persónan því það hafa svo margir gefið sál sína og barist til síðasta blóðdropa fyrir mig. En ef ég ætti að velja einn af þeim öllum, einn mann sem stendur fyrir öllu því góða sem maður vill sjá í einum leikmanni, þá myndi ég benda á Didier,“ sagði José Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×