Enski boltinn

Mourinho: Arsenal ætti að berjast um titilinn á næsta tímabili

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Mourinho og Wenger hafa háð töluverða baráttu á hliðarlínunni í gegn um tíðina.
Mourinho og Wenger hafa háð töluverða baráttu á hliðarlínunni í gegn um tíðina. Vísir/getty
Jose Mourinho, knattspyrnuþjálfari Chelsea, telur að aukin pressa sé á Arsenal á þessu tímabili eftir eyðslu undanfarinna ára. Telur hann að Arsenal sé tilbúið að berjast um titilinn í fyrsta sinn í langan tíma en Arsenal hefur ekki lent ofar en í 3. sæti í ensku úrvalsdeildinni síðastliðin tíu ár.

Kemur þetta á athyglisverðum tíma þegar Arsenal hefur aðeins keypt einn leikmann í sumar. Gengið var frá kaupunum á tékkneska markverðinum Petr Cech frá Chelsea fyrr í sumar á þessum tíma í fyrra höfðu Skytturnar gengið frá kaupunum á Alexis Sanchez, Mathieu Debuchy, David Ospina og Calum Chambers.

„Ef einhver myndi kíkja á hvað félögin eru búin að vera eyða undanfarin ár þá kæmu margir hlutir þeirri manneskju á óvart. Þegar þú tekur saman verðmiðana á leikmönnum eins og (Mesut) Özil, Sanchez, Chambers og Debuchy þá ertu kominn með ansi háa fjárhæð,“ sagði Mourinho sem átti von á harðri toppbaráttu í ár.

„Þeir eru með frábært lið, það eru góðir leikmenn þarna og frábær markmaður. Þeir eiga að geta barist um titilinn á næsta tímabili.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×