Erlent

Mótmæltu Jeff Sessions í búningum Ku Klux Klan

Samúel Karl Ólason skrifar
Mótmælendur sem vísað var út úr salnum.
Mótmælendur sem vísað var út úr salnum. Vísir/EPA
Minnst sjö mótmælendum var vikið úr nefndarsal öldungadeildarþings Bandaríkjanna, þar sem verið er að yfirheyra Jeff Sessions. Trump hefur tilnefnt Sessions sem dómsmálaráðherra Bandaríkjanna og öldungaþingið þarf að staðfesta tilnefndinguna. Meðal mótmælenda voru aðilar sem voru klæddir í búninga sem Ku Klux Klan eru hvað þekktastir fyrir.

Jeff Sessions hefur lengi verið umdeildur og hefur verið sakaður um rasisma. Einn þingmaður benti á að Sessions hefði kosið á móti því að yfirvöld í Bandaríkjunum gætu ekki meinað einstaklingum að koma til landsins vegna trúar þeirra, hann hefði verið á móti banni gegn tilteknum pyntingum og hefði lýst yfir vantrú á þörf haturslaga í Bandaríkjunum.

Sessions sóttist eftir því að verða alríkisdómari árið 1986 en var hafnað eftir að í ljós kom að hann hefði látið frá sér rasísk ummæli.

Einna alræmdust urðu þar ummæli frá árinu 1983 þegar hann vann að rannsókn á morði Ku Klux Klan manna á þeldökkum unglingspilti. Sessions sagðist þá hafa borið virðingu fyrir liðsmönnum Ku Klux Klan, en sú virðing hafi dvínað mjög þegar hann frétti að morðingjarnir hefðu verið að reykja hass.

Sean Spicer, talsmaður Trump, tísti um málið fyrir skömmu og fór fram á að Demókrataflokkurinn myndi fordæma mótmælendurna sem klæddu sig eins og meðlimir KKK.


Tengdar fréttir

Væntanlegir ráðherrar spurðir spjörunum úr

Bandarískir þingmenn hefjast handa við að kanna hæfni ráðherraefna Donalds Trump. Dómsmálaráðherraefnið verður vísast spurt út í kynþáttafordóma og utanríkisráðherraefnið spurt út í náin tengsl sín við rússneska ráðamenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×