Erlent

Mótmælti með pappamynd af eiginmanninum

Snærós Sindradóttir skrifar
Mikil mótmæli hafa geisað í Venesúela á þessu ári. Lilian Tintori lætur engan bilbug á sér finna þrátt fyrir að eiginmaður hennar hafi setið í fangelsi frá því í janúar.
Mikil mótmæli hafa geisað í Venesúela á þessu ári. Lilian Tintori lætur engan bilbug á sér finna þrátt fyrir að eiginmaður hennar hafi setið í fangelsi frá því í janúar. NordicPhotos/AFP
Lilian Tintori, eiginkona venesúelska stjórnmálamannsins Leopoldo López, steytti hnefann við hlið pappaspjalds af honum í mótmælum í höfuðborginni Karakas á miðvikudag.

Réttarhöld yfir Leopoldo hófust á sama tíma en hann er sakaður um að hvetja til ofbeldis og um eignaspjöll í mótmælaöldu sem geisað hefur í landinu allt þetta ár. Leopoldo er hagfræðimenntaður frá Harvard-háskóla í Bandaríkjunum og hefur verið helsti leiðtogi uppreisnarinnar gegn stjórnvöldum. Hann á yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsi verði hann fundinn sekur.

Lilian hefur sjálf haldið mótmælunum áfram í fjarveru eiginmanns síns og hefur meðal annars skrifað um réttarhöldin og handtökuna í Washington Post.

Hún segir að hann hafi ætlað sér að fara í framboð til borgarstjóra Karakas árið 2008 en fengið á sig ólöglegt bann.

Jafnframt hafi skoðanakönnun sýnt hann með meiri stuðning en Hugo Chávez, fyrrverandi forseta Venesúela, sem lést árið 2013. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×