Erlent

Mótmæli þrátt fyrir útgöngubann

Mótmælendur stóðu vaktina alla nóttina í borginni Charlotte í Norður-Karólínu.
Mótmælendur stóðu vaktina alla nóttina í borginni Charlotte í Norður-Karólínu. Vísir/ATP
Fjölmenn mótmæli voru í borginni Charlotte í fyrrinótt þrátt fyrir útgöngubann, sem lögreglan gerði að vísu enga tilraun til að framfylgja. Mótmæli hafa verið þar alla daga frá því á þriðjudaginn, þegar svartur maður, Keith Lamont Scott, féll fyrir byssukúlu lögreglumanns.

Lögreglan hefur fullyrt að hinn látni hafi verið vopnaður en fjölskylda hans mótmælir því, segir hann aðeins hafa verið með bók í hendi.

Fjölskyldan krefst þess að lögreglan birti opinberlega myndband, þar sem sjá má hvað gerðist. Lögreglan hefur neitað að verða við því en hefur leyft fjölskyldunni að skoða myndbandið.

Lögmaður fjölskyldunnar segir ekki hægt að sjá á myndbandinu að Scott hafi verið vopnaður. Hann hafi virst hafa verið hinn rólegasti þegar hann varð fyrir skotinu.

Lögreglan segir hins vegar að Scott hafi neitað að verða við fyrirmælum lögreglunnar og því hafi það verið metið svo að hætta stafaði af honum.

Á fimmtudaginn var lögreglukona í bænum Tulsa ákærð fyrir manndráp, en hún varð óvopnuðum manni að bana þar í borg á föstudaginn var.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×