Erlent

Mótmæli skyggja á Evrópumeistaramótið

Birta Björnsdóttir skrifar
Mótmæli og verkföll hafa staðið yfir í nokkrar vikur en þau eru til­kom­in vegna breyt­inga franskra stjórn­valda á vinnu­markaðslög­gjöf­inni. Verka­lýðssam­tök telja þær van­hugsaðar, þær þrengi að launþegum og skerði rétt­indi þeirra. Verkalýðsfélögin benda jafnframt á að hin nýja löggjöf geri vinnuveitendum auðveldara um vik að ráða, reka og semja um kaup og kjör og vilja að hún verði dregin til baka.

Stuðningur við Manuel Valls, forsætisráðherra landsins, fer þverrandi og mælist nú um 25 prósent. Þrátt fyrir það hefur hann gefið út að stjórnin muni hvergi kvika frá áætlunum sínum.

„Ég ber virðingu fyrir verkalýðsfélögum CGT, ég þekki sögu þeirra, hvernig sú saga tengist sögu landsins, andspyrnuna, viljann til að veita verkamönnum réttindi, en CGT getur ekki stöðva landið, getur ekki sett lög," sagði Manuel Valls.

Hluti verkalýðsfélaga landsins hefur boðað frekari aðgerðir í komandi viku meðan önnur ætla að sitja á sér. Stjórnvöld eru talin róa að því öllum árum að lægja öldurnar í landinu áður en Evrópumeistaramótið í knattspyrnu hefst um miðjan næsta mánuð.

„Það er líka áhætta fyrir ríkisstjórnina ef landinu verður lokað. Þótt franska hagkerfinu gangi ekki vel núna er það ekki verkalýðsfélögunum að kenna. Þau vilja sannarlega ekki gera ástandið verra. Og svo er Evrópumótið auðvitað að byrja og þá beinist athyglin að Frakklandi með þessum alþjóðlega íþróttaviðburði. Að slík ringulreið verði í landinu gerir ekki margt gott fyrir ímynd Frakklands og ríkisstjórnarinnar svo samhengið vinnur augljóslega með málamiðlun," sagði Jean-Marie Pernot, stjórnmálafræðingur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×