Erlent

Mótmæli í Frakklandi gætu sett Evrópumótið í uppnám

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Frönsk verkalýðsfélög hafa boðað aukna hörku í mótmælaaðgerðum gegn nýrri vinnulöggjöf ríkisstjórnarinnar. Fjallað er um málið á vef Bloomberg.

Mótmælin og verkföllin hafa staðið yfir í nokkrar vikur en meðal afleiðinga þeirra er að hörgull er á eldsneyti á bensínsstöðvum landsins. Stefnt er að því að starfsmenn í neðanjarðarlestakerfi Parísar, höfnum og flugvöllum landsins leggi niður störf í komandi viku. Óvíst er þó að hvaða marki því verður fylgt.

Stuðningur við Manuel Valls, forsætisráðherra landsins, fer þverrandi og mælist nú um 25 prósent. Þrátt fyrir það hefur hann gefið út að stjórnin muni hvergi kvika frá áætlunum sínum.

„Ef við myndum láta undan kröfum verkalýðsfélaganna og fólksins á götum úti vegna skammtímahagsmuna myndum við tapa öllu,“ sagði Valls í samtali við franska blaðið Journal du Dimanche. Forsetakosningar eru áætlaðar í landinu að ári og er talið ólíklegt að Sósíalistaflokkur landsins, sem bæði Valls og Francois Hollande, forseti, tilheyra, muni vera í náðinni verði haldið áfram á sömu braut.

Verkalýðsfélög landsins hafa kallað eftir því að umdeild löggjöf, sem gerir vinnuveitendum auðveldara um vik að ráða, reka og semja um kaup og kjör, verði dregin til baka.

Hluti verkalýðsfélaga landsins hefur boðað aðgerðir í komandi viku meðan önnur ætla að sitja á sér. Þau stefna hins vegar að því að grípa til vopna í annarri viku júní mánaðar en um það leiti hefst Evrópumótið í knattspyrnu í landinu. Talið er að stjórnvöld muni leggja allt kapp á að ástandið verði ásættanlegt þegar mótið hefst.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×