Erlent

Mótmæli breiðast út til annarra borga

Atli Ísleifsson skrifar
Mótmæli fóru fram í tólf borgum Bandaríkjanna í nótt.
Mótmæli fóru fram í tólf borgum Bandaríkjanna í nótt. Vísir/AFP
Mótmæli voru í fjölmörgum bandarískum borgum í nótt í kjölfar ákvörðunar dómstóls að ákæra ekki lögreglumann vegna dráps á þeldökkum táningi í Ferguson í Missouri-ríki í ágúst síðastliðinn.

Mótmælin voru víðast hvar friðsamleg en átök brutust þó út í Oakland í Kaliforníu. Óeirðir brutust einnig út í Ferguson þar sem lögregla handtók 44, en þó var rólegra umhorfs samanborið við nóttina þar áður.

Darren Wilson, lögreglumaðurinn sem skaut Michael Brown til bana sagðist í samtali við sjónvarpsstöðina ABC vera með „hreina samvisku“. Lýsti hann átökum sínum við Brown kvöldið örlagaríka, þar sem hann sagðist hafa liðið líkt og fimm ára barni sem stæði andspænis bandaríska fjölbragðaglímukappanum Hulk Hogan.

Beittu táragasi

Jon Belmar, lögreglustjóri St. Louis-borgar, segir nóttina hafa verið mun rólegri í Ferguson samanborið við aðfaranótt mánudagsins. Segir hann að einu sinni hafi þurft að beita táragasi, þar sem mótmælendur höfðu brotið rúðu í ráðhúsi Ferguson. Þá hafi einu sinni verið skotið úr byssu eftir að kveikt hafi verið í bíl. Um 2.200 þjóðvarðliðar hafa aðstoðað lögreglu í bænum.

Í frétt BBC segir að mótmælt hafi verið í tólf borgum víðs vegar um Bandaríkin, í St. Louis, Seattle, Albuquerque, New York, Cleveland, Los Angeles, Oakland, Minneapolis, Atlanta, Portland, Chicago og Boston.

Að neðan má sjá viðtal ABC við Wilson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×