Innlent

Mótmæla ráðningarferli í Hafnarfirði

Samúel Karl Ólason skrifar
Haraldur Guðmundsson og Gunnar Axel Axelsson.
Haraldur Guðmundsson og Gunnar Axel Axelsson. Vísir/Daníel
Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði sagði sig úr valnefnd sem meta átti hæfi umsækjenda um bæjarstjórastöðuna í Hafnarfirði. Gunnar Axel Axelsson, segir í bókun frá fundi bæjarráðs í dag að ekki hafi verið staðið við framkvæmd ráðningarferlisins eins og til stóð.

Þá segir hann að sér hafi verið tilkynnt um sameiginlega niðurstöðu fulltrúa meirihlutans í nefndinni, áður en formlegt mat á umsækjendum hafði farið fram.

Ákveðið var á fundinum að ráða Harald Guðmundsson sem næsta bæjarstjóra Hafnarfjarðarkaupstaðar.

Gunnar tekur fram í bókun sinni, að í ákvörðun hans felist ekki efnisleg afstaða til einstakra umsækjenda. Hvorki Haralds, né annarra sem sótt hafi um.

Minnihlutinn sat hjá

Fulltrúar minnihluta Samfylkingarinnar og Vinstri grænna sátu hjá í atkvæðagreiðslu um að ráða Harald og í bókun þeirra segir að það sé vegna vinnubragða fulltrúa meirihlutans í valnefndinni.

„Fulltrúar minnihluta sitja því hjá við afgreiðslu tillögu meirihluta bæjarráðs en óska engu að síður nýráðnum bæjarstjóra farsældar í sínum störfum og vonast til þess að eiga við hann gott samstarf.“

Þó bendir minnihlutinn á að samkvæmt minnisblaði sem lagt hafi verið fram á fundinum eigi að hækka laun bæjarstjóra um 31,5 prósent.

„Þessar upplýsingar sem fram koma í minnisblaðinu eru lagðar fram án allrar umræðu og aðkomu bæjarstjórnar. Fulltrúar minnihlutans eru mjög hugsi yfir því hvaða skilaboð felast í slíkri hækkun á launum æðsta embættismanns sveitarfélagsins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×