Innlent

Mótmæla lokun Bjarma

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/getty
Fulltrúar Samfylkingar og VG í fræðsluráði Hafnarfjarðarbæjar mótmæla ákvörðun meirihluta Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks að loka eina sérhæfða ungbarnaleikskólanum í sveitarfélaginu. Telja þeir að með því sé stigið skref aftur á bak í málefnum leikskólastigsins og að vegið sé að grunnstoðum þess, þvert á vilja foreldra. Þetta kemur fram í fundargerð fræðsluráðs Hafnarfjarðarbæjar.

Í fundargerðinni segir að með þessum aðgerðum sé ljóst að ekki verði forgangsraðað í þágu leikskólastigsins í Hafnarfirði. Leikskólinn hafi verið leiðandi á sínu sviði og einn fárra leikskóla sem hafi frá upphafi uppfyllt lögbundin viðmið um lágmarksfjölda fagmenntaðra starfsmanna.

„Ef Hafnarfjarðarbær ætlar að vera bær sem mætir þörfum barnafjölskyldna, sem stenst kröfur nútímans og samanburð við þau sveitarfélög sem hvað mesta framsýni hafas ýnt í þjónustu við börn á leikskólaaldri, þá eru þessar aðgerðir svo sannarlega ekki skref í þá átt,“ segir orðrétt í fundargerðinni.

Tillaga fræðsluráðs um að segja upp samningi við rekstur ungbarnaleikskólans í Hafnarfirði, Bjarma, við Bjargir ehf. var í gær samþykkt í ljósi þess að börnum á leikskólaaldri í Hafnarfirði muni fækka samkvæmt spám um íbúaþróun. Samningunum var því sagt upp frá og með 31.janúar 2015 með sex mánaða fyrirvara í samræmi við uppsagnarákvæði samningsins. Bæjarstjórn staðfesti síðan uppsögnina.

„Við þessa ákvörðun er litið til hagkvæmni rekstrareininga í leikskólum í bæjarfélaginu, en dvalargildið á Bjarma er 17-23% dýrara en á öðrum þjónustureknum leikskólum bæjarins. Ekki hefur heldur alltaf verið hægt að fylla í pláss leikskólans þótt bærinn þurfi, samkvæmt þjónustusamningi, að greiða fyrir allt að 24 börn í átta tíma á dag,“ segir í bókuninni en hana má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×