Innlent

Mótmæla læknisleysi harðlega

Vopnfirðingar taka það ekki í mál að verða læknislausir aftur.
Vopnfirðingar taka það ekki í mál að verða læknislausir aftur.
Hreppsnefnd Vopnafjarðar hefur mótmælt því við við velferðarráðuneytið og Heilbrigðisstofnun Austurlands að Vopnafjörður verði án grunnlæknisþjónustu eins og var um þriggja daga skeið í síðasta mánuði.

„Það var búið að gera okkur grein fyrir því að þetta gæti endurtekið sig í haust og það viljum við alls ekki sjá,“ segir Þorsteinn Steinsson sveitarstjóri. „Það getur nefnilega verið erfitt, jafnvel fyrir fílhraust fólk, að segja: nei ég ætla ekki að vera veikur í dag,“ bætir hann við.

Hreppsnefndin bókaði mótmæli á fundi sínum 23. júní og þar segir: „Vopnafjörður er í 135 kílómetra fjarlægð frá Egilsstöðum, þar sem næst er unnt að ná í lækni, ef vá ber að dyrum. Jafnframt er um háa fjallvegi í um 600 metra hæð yfir sjávarmáli að ræða svo allsendis er óvíst hversu öruggt er að komast milli þessara staða...“

„Þetta er eins og rúlletta að spara með þessum hætti, það gæti nú aldeilis orðið dýrt ef einhver veikist og kemst ekki undir læknishendur í tíma,“ segir Þorsteinn.

Það var dagana 16. til 19. júní sem enginn læknir var á vakt á Vopnafirði.

- jse



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×