Innlent

Mótmæla gjaldi fyrir rotþró

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Hús við Hraunhóla í Garðabæ eru meðal þeirra um 120 fasteigna sveitarfélagsins sem notast við rotþrær í stað holræsatenginga.
Hús við Hraunhóla í Garðabæ eru meðal þeirra um 120 fasteigna sveitarfélagsins sem notast við rotþrær í stað holræsatenginga. Fréttablaðið/Pjetur
Álagningu holræsagjalda í Garðabæ, þar sem undir eru rotþrær sem lítið þurfi að eiga við, telur hluti íbúa við Hraunhóla í sveitarfélaginu jaðra við okur. Þrónum hafi á sínum tíma verið komið fyrir án nokkurrar aðkomu bæjarfélagsins.

Hjónin Axel Thorarensen Hraundal og Hilde Berit Hundstuen eiga hús við Hraunhóla 4a og þurfa þar að borga tvöfalt holræsagjald af einni rotþró.

„Þetta er ein eign á tveimur hæðum sem konan á og ber tvö fasteignanúmer,“ segir Axel sem fór að forvitnast um málið þegar álagningarseðillinn barst fyrir um einum og hálfum mánuði.

„Við vildum vita hvernig í ósköpunum gæti staðið á þessu. En þau vilja meina að í lögum sé að þarna eigi að borga fyrir og þá kalla þau þetta bara holræsa- og rotþróagjald og innifeli þjónustu við rotþróna,“ segir Axel og bætir við að í fyrrasumar hafi þau einmitt farið fram á slíka þjónustu.

Álagningarseðill 2015 Á þessum seðli má sjá hvernig eigandi einbýlishúss með rotþró er rukkaður um ríflega 60 þúsund króna holræsagjald.
„Og þá tók þá um tvær vikur bara að finna rotþróna.“ Við verkið hafi verið notað málmleitartæki og starfsmenn bæjarins hafi á endanum sagst hafa kíkt ofan í hana og að hún væri í lagi. 

Axel segir málum hins vegar öðruvísi farið hjá bróður hans, sem búi á Kjalarnesi í landi Reykjavíkur. Þar sé hann með rotþró og hafi sett út á holræsagjaldið og fengið það fellt niður. 

„Ég benti nú þessari ágætu konu sem ég ræddi við hjá Garðabæ á þetta, en hún sagði að þetta væri annað bæjarfélag, það þýddi ekkert að vera að miða við það.“

Axel og Hilde eru ekki ein um að furða sig á gjaldtöku bæjarfélagsins. Finnur Orri Thorlacius sem á einbýlishús á einkalóð við Hraunhóla, þar sem er undir risastór safnþró sem hann segir ekkert þurfa að eiga við, segist velta fyrir sér hvort hann eigi ekki afturvirka kröfu á bæjarfélagið vegna gjaldtökunnar. 

Holræsagjald hafi hann greitt í 13 ár á staðnum, en í ár er gjaldið hjá honum 60.720 krónur. Samanlagt eru það tæpar 790 þúsund krónur, án vaxta. „Og það eru peningar sem ég get alveg notað,“ segir hann.

Sigurður Helgi Guðjónsson
Sigurður Helgi Guðjónsson, formaður og framkvæmdastjóri Húseigendafélagsins, segir holræsagjöld og holræsaskatta hafa verið til vandræða víða. 

„Við höfum verið að fara í gegnum þessi fasteignagjöld á landsvísu vegna þess hve mikið misræmi er milli sveitarfélaga. Sú vinna er í gangi.“ 

Félagið hafi vegna þessa óskað eftir fundi með forsvarsmönnum sveitarfélaga. „Svona til að ekki sé sinn siður í hverju plássi, sem aftur veldur misskilningi og glundroða,“ segir Sigurður. 

Gunnar Einarsson
Um 120 fasteignir með rotþrær

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, segir fasteignum með rotþróm hafa fjölgað heldur við sameininguna við Álftanes í ársbyrjun 2013. „Þetta eru svona 60 hús á Álftanesi og eitthvað álíka mikið hér hjá okkur,“ segir hann.

Þótt á álagningarseðli kunni að standa holræsagjald, þá segir Gunnar það vísa til holræsa- og rotþróagjalda sem sveitarfélagið innheimti. Sveitarfélagið þjónusti rotþrærnar og fyrir það sé rukkað.

Í einhverjum tilvikum segist hann þó reka minni til að gjaldið hafi verið fellt niður þar sem viðkomandi hafi sjálfur annast hreinsun á rotþró sinni. „En þá þarf viðkomandi að geta sýnt okkur að það hafi verið komið og hreinsað.“

Gunnar segir gjaldið 0,12 prósent af fasteignamati. Tilvik eins og hjá hjónunum í Hraunhólum 4 þurfi ef til vill að skoða sérstaklega. „Við viljum ekki taka meira af íbúunum en rétt er. Það er ekki okkar stíll,“ segir hann




Fleiri fréttir

Sjá meira


×