Erlent

Mótframbjóðandi Sisi Egyptalandsforseta handtekinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Anan er fyrrverandi herráðsforingi og ætlaði hann að bjóða sig fram gegn sitjandi forseta.
Anan er fyrrverandi herráðsforingi og ætlaði hann að bjóða sig fram gegn sitjandi forseta. Vísir/AFP
Yfirvöld í Egyptalandi hafa handtekið Sami Anan, fyrrverandi herforingja, sem ætlaði að bjóða sig fram gegn Abdel Fatah al-Sisi í forsetakosningum í mars. Anan er sakaður um að brot á kosningalögum og undirróðursstarfsemi gegn hernum.

Sisi hefur undanfarið herjað á andófsmenn en hann sækist eftir endurkjöri í kosningunum í mars. Yfirvöld höfðu meinað Anan um að bjóða sig fram. Hann er annar hátt setti embættismaðurinn sem yfirvöld meina að bjóða sig fram gegn Sisi.

Aðalherráð Egyptalands sakar Anan meðal annars um að hafa ekki óskað eftir leyfi frá hernum til að bjóða sig fram. Þá hafi hann falsað skjöl til að sýna að hann hefði sagt skilið við herinn, að því er segir í frétt The Guardian.

Talsmaður Anan hafnar þeim ásökunum. Herráðið hafi ekki samið yfirlýsingu sína sjálft heldur starfslið Sisi.

„Herra Anan var sterkasti frambjóðandinn og raunverulegt fyrsta val Egypta þannig að ríkisstjórnin handtók hann,“ sagði talsmaðurinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×