Enski boltinn

Mörk Eriksen verið gulls ígildi fyrir Tottenham | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Christian Eriksen hefur fagnað nokkrum mörkum til þessa.
Christian Eriksen hefur fagnað nokkrum mörkum til þessa. vísir/getty
Christian Eriksen skoraði enn eitt markið fyrir Tottenham á lokamínútunum í gærkvöldi þegar hann skaut liðinu í úrslitaleik deildabikarsins á Wembley.

Eriksen skoraði bæði mörk Tottenham gegn B-deildarliðinu Sheffield United, en það fyrra gerði hann úr stórkostlegri aukaspyrnu á 28. mínútu. Seinna markið, sem sendi Spurs í úrslitaleikinn, skoraði hann á 88. mínútu leiksins.

Sjá einnig:Eriksen hetja Tottenham

Þetta er í fjórða sinn á tímabilinu sem Eriksen skorar mark eftir 87. mínútu leiks, en hann hefur gert það þrívegis í deildinni og tryggt sínu liði með því níu mikilvæg stig í Evrópubaráttunni.

vísir/getty
Eriksen skoraði sigurmark gegn Hull í nóvember á 90. mínútu, endurtók leikinn gegn Swansea 14. desember þegar hann skoraði á 89. mínútu og tryggði Tottenham svo öll stigin þrjú gegn Sunderlannd með marki á 88. mínútu. Allir leikirnir fóru 2-1 fyrir Tottenham.

Þess utan skoraði hann eina markið í 1-0 sigri á Southampton 5. október (40. mínúta) og sigurmarkið í 2-1 sigri gegn Leicester á öðrum degi jóla (71. mínúta). Í heildina hafa mörk Eriksens því tryggt Tottenham 15 stig í úrvalsdeildinni. Liðið er með 37 stig í sjötta sæti, þremur stigum frá Meistaradeildarsæti.

Daninn magnaði hefur alltaf skorað reglulega enda mjög marksækinn og skotviss miðjumaður. Fjöldi stoðsendinga hjá honum hafa aftur á móti snarlækkað undanfarin ár.

Síðasta tímabilið sitt hjá Ajax í hollensku úrvalsdeildinni gaf hann 17 stoðsendingar en skoraði tíu mörk.  Á síðasta tímabili, hans fyrsta hjá Tottenham, gaf Daninn níu stoðsendingar og skoraði sjö mörk.

Á yfirstandandi leiktíð í ensku úrvalsdeildinni hefur Eriksen aðeins gefið eina stoðsendingu í 22 leikjum en skorað átta mörk. Eins og komið hefur fram hafa þessi mörk verið gulls ígildi fyrir Tottenham og tryggt liðinu í heildina 15 stig (9 með mörkum á lokamínútunum) og komið liðinu á Wembley.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×