Menning

Mörg orð í Jómsvíkingasögu eru ekki til annars staðar

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Það er gott að þetta er búið, ekki spurning. Ákveðinn léttir,“ segir Þórdís Edda um doktorsvörnina. 
Vísir/Anton Brink
"Það er gott að þetta er búið, ekki spurning. Ákveðinn léttir,“ segir Þórdís Edda um doktorsvörnina. Vísir/Anton Brink
Jómsvíkingasaga hefur yfir sér afþreyingaryfirbragð frekar en sem sannferðug sagnfræði. Mögulega er hún fyrsta sagan sem sýnir að það sé í lagi að blanda saman skáldskap og sagnaritun. Það er svolítið spennandi,“ segir Þórdís Edda Jóhannesdóttir bókmenntafræðingur. Hún varði nýlega doktorsritgerð við Háskóla Íslands sem heitir Jómsvíkinga saga: Sérstaða, varðveisla og viðtökur.

„Elsta handrit Jómsvíkingasögu er ritað fyrir 1300 og það er talið skrifað eftir öðru sem gæti hafa verið frá 1220, það eru svo gamaldags máleinkenni á því. Svo hún er með elstu sögum,“ segir Þórdís. „Atburðirnir eru taldir gerast – eða ekki gerast – á 10. öld í Danmörku, Noregi og Póllandi, eða Vindlandi eins og það hét þá. Þarna eru sögulegar persónur og sögulegir atburðir en samt meira og minna skáldskapur. Mér finnst mjög áhugavert að svona gömul saga sé þannig.“

Þórdís segir Jómsvíkingasögu varðveitta í nokkrum handritum frá mismunandi tímum á miðöldum. „Engin tvö handrit eru eins og ég velti fyrir mér af hverju svo sé, hvort smekkur fólks hafi breyst í tímans rás. Eitt handritið er frá 16. öld og þar er búið að breyta mörgu sem mér fannst rökrétt að tengja smekk. Þar eru meiri sviðssetningar, meiri lýsingar á persónum og fleira í þeim dúr. Þá eru komnir inn straumar frá rómönsum og fornaldarsögum.“

Flest handritin að Jómsvíkingasögu eru geymd í Danmörku, eitt er í Svíþjóð en það yngsta hér í Reykjavík, í Árnasafni að sögn Þórdísar. „Svo er hún líka að hluta til í Flateyjarbók og hún er hér,“ bendir hún á. Hún segir söguna ritaða á íslensku og á aðgengilegu máli.

„Hún er svolítið skrítin, stíllega séð, ber þess merki að sagnaritun er ekki mjög mótuð, kannski talmálsleg, sem er auðvitað erfitt að fullyrða þegar maður hefur ekki aðgang að talmáli. Þar eru mörg orð sem eru ekki til annars staðar – hurfu kannski úr málinu. En þar er líka margt sem vísar fram til stílsins sem við þekkjum í Íslendingasögum, hnyttni og fyndin tilsvör.“

Þórdís starfar við stundakennslu í HÍ bæði í bókmenntum og ritfærni og eftir áramót mun hún kafa ofan í miðaldahandrit með þeim sem hafa áhuga á því fagi. „Ég kenni svona það sem þarf að kenna, þegar vantar,“ segir hún glaðlega.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. nóvember






Fleiri fréttir

Sjá meira


×