Viðskipti innlent

Mörg hundruð milljarðar renna í vasa kröfuhafa

Magnús Halldórsson skrifar
Búist er við því að kröfuhafar Glitnis og Kaupþings muni samþykkja nauðsamninga á næstu vikum, en umfang þeirra er með öllu fordæmalaust í ljósi stærðar þrotabúanna í samaburði við Ísland. Stjórnvöld, Seðlabankinn og FME fylgjast náið með gangi mála, en erlendir kröfuhafar munu fá hundruð milljarða greiðslur í sinn hlut við samþykkt samninga.

Slitastjórnir Glitnis og Kaupþings hafa unnið að gerð nauðasamnings undanfarna mánuði, í samráði við kröfuhafa. Samkvæmt heimildum fréttastofu er vinna við þá langt komin, og vonast fulltrúar stærstu erlendu kröfuhafa bankanna, til þess að geta fengið greiðslur úr þrotabúunum í byrjun næsta árs, en þá verður búið að gera upp forgangskröfur að fullu.

Eignir þrotabúanna eru tröllvaxnar í íslensku samhengi, en heildarvirði eigna Glitnis (861 milljarður) og Kaupþings (862 milljarðar) nemur 1.723 milljörðum króna, sem er hærri upphæð en sem nemur árlegri landsframleiðslu Íslands (1.620 milljarðar).

Stærstu kröfuhafarnir í bú Glitnis og Kaupþings, sem eiga almennar kröfur, eru erlendir skuldabréfa- og vogunarsjóðir. Fulltrúar þeirra, þar helst lögmenn frá Bandaríkjunum og Bretlandi, hafa á undanförnum vikum og mánuðum fundað reglulega með fulltrúum stjórnvalda og eftirlitsstofnanna vegna fyrirhugaðra nauðasamninga, enda eru miklir hagsmunir í húfi fyrir alla sem að þeim koma.

Helst er það aðferðafræðin sem skiptir sköpum, ekki síst til þess að tryggja að útgreiðslur til erlendra kröfuhafa ógni ekki fjármálastöðugleika hér á landi.



Samkvæmt heimildum fréttastofu er litið svo á að útgreiðsla á haldbæru reiðufé þrotabúanna í erlendri mynt muni ekki ógna stöðugleika hér á landi, þar sem féð er vistað á erlendum reikningum og þarf ekki að fara í gegnum íslenskan gjaldeyrismarkað, eins og margir hafa raunar gefið í skyn, en slíkt gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir gengi krónunnar og þar með íslenskt efnahagslíf.

Þrotabú Glitnis á nú 322 milljarða króna í erlendri mynt, tæplega 30 í íslenskum krónum, eða samtals 352 milljarða króna í reiðufé. Þrotabú Kaupþings á 353 milljarða króna í erlendri mynt, ríflega 19 milljarða í krónum eða samtals 372 milljarða króna.

Samtals er reiðufé, sem greitt verður til kröfuhafa eftir samþykkta nauðasamninga, því 725 milljarðar króna, miðað síðustu birtu upplýsingar hjá þrotabúunum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu reikna erlendu kröfuhafarnir með því að 5 til 7 ár muni taka að hámarka virði eigna sem eftir standa, en að loknum nauðasamningum munu sérstök félög starf við umsýslu þeirra. En á meðal eigna eru bæði Arion banki og Íslandsbanki





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×