Innlent

Morðhótanir í Sorpu vegna gjaldskylds úrgangs

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Ekki vilja allir viðskiptavinir hlíta reglum Sorpu.
Ekki vilja allir viðskiptavinir hlíta reglum Sorpu. vísir/Vilhelm
„Þetta er náttúrlega algerlega óþolandi. Ef menn eru ósáttir eiga þeir að beina reiði sinni að þeim sem setja reglurnar en ekki að starfsfólkinu á planinu,“ segir Björn Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu, um viðskiptavini sem neita að borga uppsett gjöld og beita jafnvel starfsfólkið ofbeldi.

Björn bendir á tvö nýleg tilvik. Fyrr í þessum mánuði hafi viðskiptavinur reynt að hrinda starfsmanni og hótað honum lífláti. Í desember síðastliðnum hafi svo maður sem var beðinn að hætta að gramsa í gámi nærri ekið yfir starfsmann. „Hann gat ekki annað en séð starfsmanninn en keyrði samt áfram,“ segir Björn sem kveður vitað um hvaða menn sé að ræða.

Björn Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu. Fréttablaðið/Arnþór
„Þetta snerist um það að þessi maður neitaði að borga 1.200 krónur,“ segir Björn um fyrrnefnda málið þar sem miðaldra karlmaður hafi hótaði starfsmanni Sorpu í Jafna­seli lífláti er hann var rukkaður um gjald vegna losunar á byggingarefni. „Hann réðst á starfsmanninn og hótaði líkamsmeiðingum og setti fram morðhótun.“

Aðspurður segir Björn að enn hafi ekki verið haft samband við ofbeldismennina. „En það verður gert,“ segir hann.

Til eru upptökur úr eftirlitsmyndavélum af þessum tveimur atvikum og voru þær lagðar fram á síðasta stjórnar­fundi Sorpu þar sem Björn kynnti „stjórn tvö atvik þar sem starfsmenn SORPU voru beittir ofbeldi og máttu sæta morðhótunum vegna innheimtu á gjaldskyldum úrgangi“, eins segir um málið í fundargerð stjórnarinnar.

Ofbeldi viðskiptavina á endurvinnslustöðvum Sorpu hefur áður verið til umræðu í stjórn fyrirtækisins, til dæmis í desember 2011.

„Þá réðst einn viðskiptavinur á Dalvegi á starfsmann með hníf,“ rifjar Björn upp. Ágreiningur hafi komið upp um skilagjöld vegna drykkjarumbúða. Breytingar hafi verið gerðar í kjölfarið. „Meðal annars var eftirlit myndavéla aukið og starfsmönnum var kennt hvernig þeir ættu að bregðast við.“

Halldór Auðar Svansson, fulltrúi í stjórn Sorpu, segir að langoftast snúi þessi mál að því þegar starfsmenn rukka viðskiptavini um gjöld sem fylgja tilteknum efnisflokkum. Til greina komi að láta þá sem neita að borga einfaldlega fara sína leið og senda þeim síðan reikning eftir bílnúmerinu.

Halldór bendir á að um gjaldtökuna gildi reglur og fólk megi búast við því að vera rukkað samkvæmt þeim. „Starfsfólkið fer einfaldlega eftir þessum reglum og það er ekkert persónulegt í því,“ segir hann.

Björn segir að farið verði yfir verklag og það hvernig bregðast eigi við. „Við erum að skoða hvort þeir sem þetta stunda verði settir á svartan lista og fái ekki aðgang að endurvinnslustöðvunum. “ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 27. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×