Enski boltinn

Montdagur fyrir alla stuðningsmenn Tottenham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tvöfaldir meistarar Tottenham 1960-61.
Tvöfaldir meistarar Tottenham 1960-61. Vísir/Getty
Tottenham missti af Englandsmeistaratitlinum á mánudagskvöldið en stuðningsmenn félagsins geta þó aðeins montað sig í dag.

Fyrir nákvæmlega 55 árum síðan varð lið Tottenham Hotspur tvöfaldur meistari fyrst enskra liða á tuttugustu öldinni.

Tottenham tryggði sér þá enska bikarinn eftir 2-0 sigur á Leicester City á Wembley. Bobby Smith og Terry Dyson skoruðu mörkin.

Nítján dögum fyrr eða 17 apríl 1961, varð Tottenham enskur meistari eftir 2-1 sigur á Sheffield Wednesday. Tottenham endaði með átta stigum meira en Wednesday-liðið sem varð í öðru sæti.

Danny Blanchflower, miðjumaður Tottenham, var kosinn leikmaður ársins af enskum blaðamönnum. Hann var fyrirliði Tottenham-liðsins.

Bill Nicholson var stjóri Spurs en hann réði ríkjum hjá Tottenham frá 1958 til 1974 og hafði áður spilað yfir 300 leiki fyrir félagið frá 1938 til 1955.

Tottenham hefur ekki unnið enska titilinn aftur á þessum 55 árum sem eru liðin en sjaldan verið líklegri til þess en á þessu tímabili.

Næsta lið til að vinna tvöfalt í Englandi var Arsenal sem afrekaði það tíu árum síðar.

Liverpool bættist síðan í hópinn 1985–86 og Manchester United náði síðan að vinna þrisvar sinnum tvöfalt á tíunda áratugnum.

Síðasta lið til að vinna tvöfalt var lið Chelsea sem náði því 2009-10 en þá voru liðin átta ár síðan Arsenal náði því í þriðja sinn 2001-02. 



Félög sem hafa unnið tvennuna í Englandi:

Manchester United     

3 sinnum (1993–94, 1995–96, 1998–99)

Arsenal     

3 sinnum (1970–71, 1997–98, 2001–02)

Tottenham Hotspur     

1 sinni (1960–61)

Liverpool     

1 sinni (1985–86)

Preston North End     

1 sinni (1888–89)

Aston Villa     

1 sinni (1896–97)

Chelsea     

1 sinni (2009–10)

Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×