Innlent

Mönnuðu 23 dekkjaverkstæði með rúmlega 80 útlendingum

Svavar Hávarðsson skrifar
Fyrsta slyddan í gær olli því að dekkjaverkstæðin fylltust.
Fyrsta slyddan í gær olli því að dekkjaverkstæðin fylltust. vísir/gva
Starfsmannaþjónustan Elja hefur haft milligöngu fyrir tólf dekkjaverkstæði til að manna starfsstöðvar þeirra yfir helsta álagstímann hjá fyrirtækjunum nú í vetrarbyrjun. Þegar hafa komið til landsins rúmlega 80 manns til að leysa úr vanda fyrirtækjanna í þeirri tveggja mánaða törn sem fram undan er. Hópurinn dreifist á 23 starfsstöðvar þessara tólf fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu, í Reykjanesbæ, á Akureyri og Selfossi.

Helgi Eysteinsson
Helgi Eysteinsson, framkvæmdastjóri Elju, segir að upphaflega hafi fyrirtækið Sólning haft samband á vormánuðum og vantað menn. Greiðlega gekk að leysa úr vanda þess fyrirtækis, sem spurðist fljótt út til annarra fyrirtækja sem áttu við sama vanda að etja.

„Þarna sameinast í raun tvennt. Lausn á því að það er mjög erfitt að finna vinnandi hendur á Íslandi og hitt að það hentar þessum fyrirtækjum vel að geta fengið starfskrafta í skamman tíma í senn,“ segir Helgi og bætir við að raunveruleg þörf fyrirtækjanna til að fjölga í sínum hópi sé í raun aðeins um tíu vikur. „Ég held að þetta geri þessum fyrirtækjum kleift að veita betri þjónustu en ella. Þó að aðgangur að fólki væri til staðar myndu þau ekki sjá hag sinn í því að fastráða svona marga,“ en starfsmenn á vegum Elju koma margir frá Litháen, en einnig frá 

Póllandi, Ungverjalandi og Rúmeníu.

Þetta litla dæmi hefur víðtækari skírskotun þar sem fyrirtæki í fjölbreyttri starfsemi eiga í erfiðleikum með að fá fólk til starfa. Helgi játar því; Elja hóf starfsemi í janúar og hefur strax fengið hingað til starfa rúmlega 400 manns – en í augnablikinu eru 250 manns við störf á vegum fyrirtækisins hjá fjölbreyttri flóru fyrirtækja.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×