Enski boltinn

Monk: Shelvey er latur og verður að taka sig taki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Garry Monk, stjóri Swansea, er afar óánægður með vinnuframlag miðjumannins Jonjo Shelvey og segir að hann þurfi að taka sig taki.

Shelvey var tekinn af velli í 1-0 sigri Swansea á Aston Villa á öðrum degi jóla en Gylfi Þór Sigurðsson skoraði sigurmark leiksins beint úr aukaspyrnu.

„Ég hef margrætt þetta við hann,“ sagði Monk við enska fjölmiðla en Shelvey fékk í leiknum sína sjöundu áminningu á tímabilinu. „Við höfum ekki efni á því að fá ódýr spjöld á okkur og þetta spjald varð til þess að hann var tekinn af velli. Ein tækling í viðbót og hann hefði getað fengið rautt.“

„Jonjo þarf að átta sig á aðstæðum því þessi áminning skrifast alfarið á leti. Hann verður að standa sig betur en svo.“

„Þetta snýst um að sinna sinni vinnu almennilega og hafa skilning á því hvaða hlutverki þú gegnir - ekki bara fyrir þig sjálfan heldur liðið allt.“

„Þetta þarf hann að læra því annars mun hann ekki spila. Við höfum ekki efni á ódýrum mistökum því okkur hefur þegar verið refsað fyrir þau.“

Shelvey kom til Swansea frá Liverpool í fyrra fyrir fimm milljónir punda en liðin mætast á Anfield í kvöld.


Tengdar fréttir

Gylfi: Arsenal-markið var líklega betra

"Þetta var ekki fallegasti leikurinn á að horfa í seinni hálfleik. Við vorum mun betri í fyrri hálfleik og hefðum átt að skora annað mark og klára leikinn,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson við fréttaritara Swansea eftir að hafa tryggt liði sínu 1-0 sigur á Aston Villa í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×