Innlent

Molotov-málið: Rannsaka hvort einhver hafi greitt fyrir árásina

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er búin að yfirheyra marga umfram þá sex sem handteknir voru vegna rannsóknar á atlögunni sem gerð var að fulltrúa sýslumanns og lögreglustjóra á Akureyri í síðustu viku.

Fjórum hinna handteknu var fljótlega sleppt en tveir sitja í gæsluvarðhaldi fram á morgundaginn. Friðrik Smári Björgvinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar, segir að ekki sé búið að ákveða hvort krafist verður framlengingar á varðhaldinu.

Fulltrúi lögreglunnar á Akureyri og nágrannar hans vöknuðu upp við mikinn hvell um fimmleytið á miðvikudagsmorgun í liðinni viku. Bíll mannsins stóð í ljósum logum sökum Molotov-kokteils, bensínssprengju, sem kastað hafði verið í bílinn. Grímuklæddur maður hafði fyrr um nóttina ógnað manninum með hnífi á heimili hans.

Morgunblaðið segist hafa fyrir því öruggar heimildir að sá sem stóð að baki tilræðunum hafi ekki tekið þátt í þeim sjálfur heldur greitt öðrum manni eða mönnum fyrir það. Þá vaknar sú spurning hvort að annar þeirra sem eru í gæsluvarðhaldi sé gerandi og hinn sá sem greiddi fyrir.

Friðrik Smári sagðist ekki geta sagt af eða á um það á meðan rannsókn væri enn í fullum gangi.


Tengdar fréttir

Rannsókn Molotov-málsins miðar vel

Reiknað er með því að farið verði fram á gæsluvarðhald yfir manni sem handtekinn var í gær í tengslum við bensínsprengjuárás.

Krefjast gæsluvarðhalds yfir brennuvörgum á Akureyri

Tveir karlmenn, sem handteknir voru á Akureyri í gærmorgun, grunaðir um að hafa áður kveikt í bíl með bensínsprengju, eða svonefndum Molotov kokteil, eru enn í haldi lögreglunnar og verður karfist gæsluvarðhaldsúrskurðar yfir þeim innan stundar.

Fjórir í haldi vegna Molotov málsins á Akureyri

Í gærkvöld handtók lögreglan á Akureyri þrjá menn til viðbótar vegna rannsóknar á árásum á hús fulltrúa sýslumanns á Akureyri. Einum af þeim var sleppt eftir yfirheyrlsu. Málið er litið alvarlegum augum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×