Erlent

Mögulegt að lagaleg einsleitni ESB víki fyrir sérlausnum

Atli Ísleifsson skrifar
David Cameron hefur haft efasemdir um veru Bretlands í ESB en nú hefur hann stigið fram og segist ætla að berjast fyrir því með kjafti og klóm að Bretar verði áfram aðilar að sambandinu.
David Cameron hefur haft efasemdir um veru Bretlands í ESB en nú hefur hann stigið fram og segist ætla að berjast fyrir því með kjafti og klóm að Bretar verði áfram aðilar að sambandinu. Vísir/Hörður Sveinsson/AFP
„Ég held að þetta hafi ekki mikil áhrif á grundvallarþróun bandalagsins en þetta hnykkir á þeirri stöðu að Bretar hafa nú það sem menn kalla „sérstaka stöðu“ innan Evrópusambandsins,“ segir Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðiprófessor aðspurður um hvaða áhrif samningurinn um breytta aðildarskilmála Bretlands komi til með að hafa á þróun ESB.

Eiríkur segir að það sé ef til vill skýrara en áður að það séu Þjóðverjar, Frakkar og meginlandsríkin sem „stýri þessari skútu, en að Bretar séu enn um borð og taki þátt þó að þeir stigi ögn lengra út á jaðarinn frá því sem áður var.“

Eiríkur sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar að þetta gæti orðið til þess að einhver hinna 27 aðildarríkja sambandsins fari að líta til þátta í sínum aðildarsamningi sem þeir myndu vilja breyta og hugsanlega vilji fara fram á slíkt „þannig að Evrópusambandið einkennist jafnvel fremur af sérlausnum aðildarríkja heldur en að vera einsleitt í lagalegu tilliti eins og menn hafa leitast við að haga málum.“

Eiríkur segir fréttir gærdagsins og dagsins í dag auka líkurnar á að Bretar kjósi með áframhaldandi ESB-aðild Bretlands. David Cameron forsætisráðherra tilkynnti í morgun að þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Bretlands að sambandinu fari fram 23. júní næstkomandi.

„David Cameron hefur haft efasemdir um veru Bretlands í Evrópusambandinu en nú stígur hann fram og ætlar að berjast fyrir því með kjafti og klóm að Bretar verði áfram inni í Evrópusambandinu.

Bretland er land með mjög rótgróna stjórnmálamenningu og þegar forystumennirnir og forsætisráðherrann tekur svo einarða afstöðu með veru Bretlands í Evrópusambandinu þá aukast líkur á að fólk fylgi þeirri línu.

Hinn stóri flokkurinn [Verkamannaflokkurinn] er fylgjandi aðild Bretlands en Íhaldsflokkurinn er nú klofinn. Við eigum eftir að sjá hvaða áhrifamenn innan hans munu stilla sér upp útgöngumegin. Nú þegar hafa nokkrir mjög áhrifamiklir leiðtogar flokksins verið þeim megin, en á meðan forsætisráðherrann og innsti kjarninn ætlar að berjast heilshugar, eins og hann orðaði það í morgun, fyrir veru Bretlands í bandalaginu þá er líklegra að þeir verði áfram. Skoðanakannanir benda þó til að þetta geti farið á hvorn veginn sem er,“ segir Eiríkur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×