Körfubolti

Mögnuð endurkoma KR-inga og staðan er orðin 2-0

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brynjar Þór Björnsson kláraði leikinn í kvöld.
Brynjar Þór Björnsson kláraði leikinn í kvöld. Vísir/Ernir
KR-ingar lentu mest 18 stigum undir í þriðja leikhluta en unnu samt í Grindavík í kvöld í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum Dominos-deildar karla í körfubolta.

KR vann leikinn 81-77 og getur þar með tryggt sér sæti í undanúrslitum á heimavelli sínum í næsta leik. KR vann fyrsta leikinn 71-65 í DHL-höllinni.

Brynjar Þór Björnsson, fyrirliði KR-liðsins, skoraði sjö síðustu stig leiksins og tryggði sínum mönnum þar með magnaðan endurkomusigur.

Helgi Már Magnússon skoraði 21 stig fyrir KR og Brynjar var með 18 stig. Pavel Ermolinskij var með 11 stig og 9 fráköst á 18 mínútum.

Ólafur Ólafsson og Rodney Alexander skoruðu báðir 17 stig fyrir Girndavík en Ólafur var að koma aftur inn í Grindavíkurliðið eftir veikindi.

Grindavík var þrettán stigum yfir fyrir lokaleikhlutann en hann var KR-liðið hinsvegar 27-10.

KR-ingar virtust vera í góðum málum eftir fyrsta leikhlutann enda strax komnir níu stigum yfir, 25-16. Vesturbæingar voru síðan ellefu stigum yfir, 32-21, þegar Grindvíkingar fóru í gang.

Grindavíkurliðið fór þá heldur betur á flug, vann síðustu sjö mínútur fyrri hálfleiksins, 26-7 og var því átta stigum yfir í hálfleik, 47-39.

Þorsteinn Finnbogason og Þorleifur Ólafsson áttu báðir frábæra innkomu í Grindavíkurliðið á þessum kafla en þeir skoruðu báðir tvo þrista og skoruðu til samans sextán stig á þessum sjö mínútum.

Grindvíkingar unnu þriðja leikhlutann 20-15 og voru því þrettán stigum yfir, 67-54, fyrir lokaleikhlutann en Grindavíkurliðið var þá búið að halda Michael Craion í átta stigum fyrstu 30 mínútur leiksins.

KR-ingar fundu hinsvegar taktinn í fjórða og síðasta leikhlutanum sem liðið vann 27-10 og tryggði sér sigurinn og þar með 2-0 forystu í einvíginu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×