Innlent

Móðurhjartað sló mikið eftir snjóflóðið

Bjarki Ármannsson skrifar
Ingólfur Axelsson dvelur um þessar mundir í grunnbúðum Everest.
Ingólfur Axelsson dvelur um þessar mundir í grunnbúðum Everest. Mynd/Axel Bragi Bragason
„Móðurhjartað sló mikið þangað til við heyrðum að allt væri í lagi,“ segir Ingibjörg Ragnarsdóttir, móðir Ingólfs Axelssonar. Ingólfur er ásamt Vilborgu Örnu Gissurardóttur staddur í grunnbúðum Everest-fjalls, um 500 metrum fyrir neðan staðinn þar sem mannskætt snjóflóð féll aðfaranótt föstudags.

„Við fréttum snemma af slysinu og það var ekkert sagt hvort það væri í lagi með hann,“ segir Ingibjörg. „Það var auðvitað allt sett í gang að reyna að ná í hann. Svo koma fréttir um að það sé í lagi með Vilborgu, sem betur fer, en þá varð maður ennþá smeykari.“

Hún náði loks stuttlega tali af syni sínum í gær en símasamband var mjög ótryggt í grunnbúðunum eftir slysið. Hún segir biðina hafa verið mjög erfiða og að hún hafi ekki spurt Ingólf út í slysið.

„Við erum bara afskaplega þakklát fyrir að það sé í lagi með þau,“ segir Ingibjörg.

Ingibjörg Ragnarsdóttir segist hafa verið mjög smeyk um son sinn.Vísir/Anton
Allir hafa misst

Yfirvöld í Nepal segja að minnsta kosti tólf hafi farist í snjóflóðinu og að margra sé enn saknað. Hinir látnu voru allir nepalskir sjerpar, þaulreyndir fjallaleiðsögumenn, meðal annars úr leiðangri Vilborgar og Ingólfs. 

„Þetta er virkilega erfiður dagur og allir hér hafa misst í dag,“ sagði Vilborg þegar fréttastofa náði af henni tali snemma í gær.

„Sjerparnir hafa misst fjölskyldumeðlimi og vini. Við hin höfum misst fyrirmyndir og þeir sem hafa verið hér í mörg ár hafa margir misst félaga sína,“ sagði Vilborg. 

Hún hefur ekki tekið ákvörðun um framhald ferðarinnar en til stóð að ná efsta tindi fjallsins í næsta mánuði.

Snjóflóðið féll í um 5.800 metra hæð um klukkan eitt í fyrrinótt að íslenskum tíma, sem gerir kortér í sjö að staðartíma. Slysið er hið mannskæðasta í sögu Everest-fjalls.

Stjórnvöld í Nepal hafa ekki gefið upp nöfn þeirra sjerpa sem létust í snjóflóðinu né þeirra sem enn er saknað. Sjerparnir lögðu af stað snemma dags til að fara með vistir upp á fjall og undirbúa aðalklifurtímabilið sem á að hefjast á næstu dögum.

Tökulið óvisst um afdrif sjerpanna

Leikarinn Ingvar E. Sigurðsson var ásamt fleirum staddur í fjallshlíðum Nepal í janúar síðastliðnum við tökur á kvikmyndinni Everest í leikstjórn Baltasars Kormáks. Allt tökulið er komið aftur til Evrópu en hann segist ekki vita hvort sjerparnir sem aðstoðuðu leikaraliðið hafi verið meðal þeirra látnu.

„Þessir sem ég kynntust þurftu sumir að fara snemma því þeir voru að fara í leiðangur upp á fjallið,“ segir Ingvar. „Við vitum ekkert um þá.“

Kvikmyndin Everest fjallar um hörmungarnar sem áttu sér stað í fjallinu árið 1996 þegar átta manns létu lífið. Það var mannskæðasta slys í sögu fjallsins þar til í fyrrinótt.


Tengdar fréttir

"Þetta er litla barnið mitt“

Inga Ragnarsdóttir, fyrrum sjúkranuddari handboltalandsliðsins, segist smeyk að vita af syni sínum á Everest-fjalli.

Ingólfur er heill á húfi

"Ingó is OK!" stendur á heimasíðunni ingoax.is þar sem fylgst er með ferðalagi Ingólfs á Everest




Fleiri fréttir

Sjá meira


×