Erlent

Móðir Columbine-morðingja: „Erfitt að lifa með því að einhver sem þú elskar og hefur alið upp hafi drepið fólk á svona hryllilegan hátt“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mynd úr öryggismyndavél af þeim Eric Harris og Dylan Klebold í Columbine-skólanum 20. apríl 1999.
Mynd úr öryggismyndavél af þeim Eric Harris og Dylan Klebold í Columbine-skólanum 20. apríl 1999. vísir/getty
Þann 20. apríl 1999 myrtu þeir Dylan Klebold og Eric Harris 13 manns í Columbine-gagnfræðiskólanum í Bandaríkjunum. Þeir særðu 21 og frömdu síðan sjálfsmorð. Skotárásin vakti mikinn óhug víða um heim og um hana hefur verið ítarlega fjallað, meðal annars í heimildarmynd Michael Moore, Bowling for Columbine.

Nú hefur móðir Dylan, Sue Klebold, rofið þögnina, 17 árum eftir árásina, en hún hefur skrifað bók um það hvernig er að lifa með því að eiga son sem framdi hræðilegan glæp. Allur ágóði bókarinnar rennur til hjálparsamtaka sem vinna með geðfötluðum.

Í viðtali við ABC News vegna útgáfu bókarinnar sagði Klebold að hún hefði tekið eftir því að eitthvað væri að angra son sinn en hún afskrifaði það sem „unglingaþunglyndi.“ Dylan var hins vegar að breytast mikið og Klebold segist ekki hafa áttað sig á því.

„Hann bjó í allt öðrum heimi en ég. [...] Það er erfitt að lifa með því að einhver sem þú elskar og hefur alið upp hafi drepið fólk á svona hryllilegan hátt. Ég held að við foreldrar viljum trúa því að ef eitthvað er að börnunum þá myndum við vita það. En í tilfelli Dylan hafði ég ekki hugmynd um það og það er erfitt að lifa með því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×