Erlent

Móðir Anis Amri segir lögregluna hafa brugðist

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Nour Alhoda Hassani, móðir morðingjans.
Nour Alhoda Hassani, móðir morðingjans. Nordicphotos/AFP
Anis Amri féll í fyrrinótt í skotbardaga við lögreglumenn í Mílanó á Ítalíu. Hans hafði verið leitað um alla Evrópu vegna árásarinnar á jólamarkaðinn í Berlín á mánudag.

Þýska lögreglan segir að Amri hafi farið með lest til Ítalíu. Hann hafi komið til Mílanó um klukkan eitt aðfaranótt föstudags. Fáeinum klukkustundum síðar hafi hann orðið á vegi tveggja lögreglumanna. Þeir hafi borið kennsl á hann og þá hafi hann tekið upp byssu og byrjað að skjóta. Annar lögreglumannanna varð fyrir skoti og særðist, en Amri lét lífið þegar hann varð fyrir skoti frá lögreglunni.

Lögreglumenn á vettvangi í Mílanó þar sem Anis Amri féll í skotbardaga við lögreglu.Nordicphotos/AFP
Móðir hans, Nour Alhoda Hassani, sakar lögregluna í Þýskalandi og á Ítalíu um að hafa brugðist. Ábyrgðin af ódæðisverki hans liggi að hluta hjá þeim: „Af hverju var hann ekki sendur til Túnis? Af hverju var hann ekki dæmdur? Af hverju var hann ekki handtekinn?“ spyr hún í viðtali við þýsku útvarpsstöðina Deutsche Welle. „Þið höfðuð tvisvar eða þrisvar sinnum haft hendur í hári hans.“ Hann varð tólf manns að bana og særði nærri fimmtíu manns á mánudagskvöldið var þegar hann ók 25 tonna vöruflutningabifreið inn á jólamarkað í Berlín. 

Þá voru í gær tveir menn um þrítugt, bræður frá Kosovo, handteknir í Oberhausen í Þýskalandi, grunaðir um að ætla að fremja hryðjuverk í stórri verslunarmiðstöð þar í borg. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×