Sport

MMA er ekki íþrótt heldur sýning

Ronda Rousey í hringnum.
Ronda Rousey í hringnum. vísir/getty
Formaður júdósambands Evrópu er ekki mjög hrifinn af blönduðum bardagalistum.

„MMA er ekki íþrótt heldur einhvers konar sýning. Íþróttir eiga að standa fyrir mannleg gildi en MMA gerir það ekki," sagði Sergey Soloveychick, formaður júdósambands Evrópu.

„Það er ekki gott ef þú liggur ofan á andstæðingi og lemur hann í höfuðið. Það er ekki eitthvað sem við viljum kenna ungu kynslóðinni. Andinn að vilja ganga frá andstæðingi sínum er ekki í okkar anda."

Sergey og félagar hafa tekið réttinn af Glasgow að halda næsta Evrópumeistaramót í júdó þar sem breska júdósambandið er í nánu samstarfi við UFC. Það fer þess í stað fram í Aserbaijan.

David Allen, varaforseti og framkvæmdastjóri UFC í Evrópu, varði sína íþrótt.

„Að segja að það séu ekki reglur í MMA er ekki rétt. MMA er átta íþróttir saman í einni. Sex af þessum átta íþróttum eru Ólympíuíþróttir," sagði Allen.

„Að reyna að halda því fram að þetta sé ekki íþrótt er því alrangt. Við vildum tengjast júdó í Bretlandi því við vildum hjálpa íþróttinni og kynna hana fyrir fleirum."

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×