Erlent

Mjótt á munum í Skotlandi

Heimir Már Pétursson skrifar
Nú þegar tæpir tveir sólarhringar eru þar til Skotar ganga að kjörborðinu í þessari sögulegu þjóðaratkvæðagreiðslu, er mjög mjótt á munum milli Já og Nei fylkinganna hvað varðar afstöðuna til sjálfstæðis Skotlands. Þegar nýjust kannanir eru vigtaðar saman ætla 42 prósent Skota að segja Nei við sjálfstæði, 40 prósent ætla að segja já og 17 prósent hafa ekki enn ákveðið sig.

Skotland hefur lengi verið eitt helsta vígi breska Verkamannaflokksins og hér nýtur Íhaldsflokkurinn lítils fylgis, enda eru þeir Tony Blair og Gordon Brown fyrrverandi leiðtogar Verkamannaflokksins og forsætisráðherrar báðir frá Skotlandi. Brown messaði yfir löndum sínum í dag og vandaði leiðtoga Skoska þjóðarflokksins ekki kveðjurnar.

„Ekki einu sinni síðustu tvo daga kosningabaráttunnar fáið þið svör. Og ég segi við Alex Salmond: Þú getur hunsað sumar viðvaranir sérfræðinga stundum, en þú getur ekki hunsað allar viðvaranir alltaf.“

Brown dró upp dökka mynd af framtíðinni samþykktu Skotar að stofna sjálfstætt ríki.

„Ef þið veljið Já, verða öll tengsl, hver einsasti hlekkur sem til er, sambandið sem við höfum við vini okkar, nágranna og ættingja, öll pólitísk og stjórnskipuleg tengsl munu hverfa. Og lítið svo á aðrar afleiðingar. Við missum ávinninginn sem við höfum af breska gjaldmiðlinum og getuna til að taka ákvarðanir á sameiginlegum vettvangi Stóra-Bretlands, og verum hreinskilin um þetta, eina milljón starfa sem tengjast aðildinni að ríkjasambandinu.“

Búist er við met kjörsókn á fimmtudag, eða vel yfir 80 prósent en fyrstu tölur úr kjördæmunum 32 munu liggja fyrir um miðnætti og lokatölur ættu að verða ljósar um klukkan fjögur á föstudagsmorgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×