Lífið

Mjög kjánalegt að kaupa eftirlíkingar

Guðný Hrönn skrifar
Halla Helgadóttir er framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar.
Halla Helgadóttir er framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar. Vísir/GVA
Verslun á netinu kallast hópur á Facebook sem ætlaður er öllum þeim sem hafa gaman af því að versla á netinu. Á þeirri síðu keppist fólk við að deila góðum ráðum um vefverslanir og ræða allt sem við kemur því að versla á netinu. Margt fólk í þeim hóp hikar ekki við að kaupa eftirlíkingar af hönnunarvörum.

Í Facebook-hópnum Verslun á netinu er algengt að fólk deili myndum af varningi sem það verslar á síðum á borð við Aliexpress og Alibaba. Stór hluti þess varnings sem fólk virðist vera að kaupa sér eru eftirlíkingar af hönnunarvörum. Margir þeir sem deila myndum af eftirlíkingum af hönnun frá t.d. Iittala, Kartell og Kay Bojesen hika ekki við að stæra sig af því að eftirlíkingin sé mjög lík upprunalegri hönnun en mun ódýrari.

Lífið tók Höllu Helgadóttur, framkvæmdarstjóra Hönnunarmiðstöðvar, tali en hún hefur sterkar skoðanir á hönnunarstuld líkt og þeim sem margir landmenn virðast stoltir styðja við með því að kaupa eftirlíkingar. Spurð út í hvaða áhrif hönnunarstuldur sem þessi hefur segir hún hann geta dregið undan nýsköpun og viðskiptum með ósvikna hönnun að gera. „Þetta dregur úr möguleikum fólks á að hanna, ná árangri og lifa á sköpun sinni,“ segir Halla. „Fólk áttar sig illa á því hversu mikil áhrif það hefur að kaupa eftirlíkingar.

Til að setja þetta í skiljanlegt samhengi held ég flestir íslendinga yrðu óhressir með ef einhver úti í heimi myndi kópera höfundarverk Bjarkar Guðmundsdóttur eða misnota hennar hugverk. Ég hugsa að mjög margir yrðu reiðir yfir því.“

Þegar fólk kaupir vísvitandi eftirlíkingar af hönnun er um óheiðarleg viðskipti að ræða að mati Höllu. „Þeir sem kaupa stolna hönnun er í raun bara að styðja við stuld og ýta undir óheiðarlega starfsemi.“

En hvað er hægt að gera til að uppræta vandamálið? „Mín skoðun er sú að fræðsla er alltaf best. Flestir vilja vera heiðarlegir og margir taka þátt í þessu af vanþekkingu. Það þarf að útskýra fyrir fólki hvað það er að gera og hvaða áhrif það hefur.“

„Svo er auðvitað til fólk sem er með einbeittan brotavilja, fólk sem er alveg sama, og er jafnvel að flytja inn stolna hönnun í stórum stíl. Þegar slíkt kemst upp er sá varningur gerður upptækur og honum fargað. Við þekkjum það auðvitað,“ segir Halla og nefnir sem dæmi húsgögnin sem voru keypt í ráðhúsið á sínum tíma. Um eftirlíkingar var að ræða og þeim var á endanum fargað. „Það var neyðarlegt mál þar sem eðlilegast hefði verið að verja fé í alvöru hönnunarvöru eða bara sleppa því. Það er mikil sóun fólgin í því að þurfa að eyða slíkum húsgögnum sem annars eru alveg nothæf, það eru ekki góðar fréttir.“

Halla hefur ekki skýringu á af hverju sumt fólk sækir í að eiga eftirlíkingar. „Ef þú villt eiga dýra og flotta hönnunarvöru þá er ekkert varið í að eiga kóperinguna. Ef þig langar að eiga ákveðinn hlut vegna hönnunar, gæða og einstakra eiginleika þá er bara mjög kjánalegt að kaupa eftirlíkingu. Það er miklu eðlilegra að kaupa bara eitthvað annað. Það er mjög aumt að vera með eftirlíkingar og að auglýsa það á netinu er verulega hallærislegt. Ef þú hefur í rauninni engan áhuga á hönnuninni sem slíkri og gæðunum sem fylgja því að kaupa hannaðar vörur þá skil ég ekki af hverju fólk kaupir ekki bara eitthvað annað.“

Halla spyr sig svo að því hvort fólk átti sig almennt á því að mjög ódýrar fjöldaframleiddar vörur eru oft framleiddar með vafasömum hætti þar sem verið er að misnota fátækt fólk, m.a. börn. „Er fólk eitthvað að hugsa út í hvaðan varan kemur? Þegar vörur eru framleiddar í gríðarlegu magni og kosta verulega lítið, þá segir það sig sjálft að þetta bitnar á einhverjum í ferlinu. Einhver er að fá mjög lítið borgað, það er bara þannig. En þetta er auðvitað annað vandamál, stórt samfélagsvandamál.“

„Við viljum flest vera heiðarleg en í tæknivæðingu samtímans erum við í auknum mæli að telja okkur trú um að að það sé allt í lagi að stela hugverki því það er erfitt að koma í veg fyrir þannig stuld. Fólk reynir að telja sér trú um að þetta sé í lagi vegna þess að það verði ekkert tjón,“ segir Halla sem hvetur alla til að velta hönnunarstuldi fyrir sér. „Það hefur alltaf verið áskorun að verja höfundarrétt, og það hafa alltaf verið gerðar tilraunir til að fara illa með rétt höfunda og hönnuða.“

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×