Innlent

Mjög alvarleg bilun í tölvukerfi Landspítalans

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ekki liggur fyrir hvort einhverjar upplýsingar hafi glatast eða hvaða áhrif bilunin hafði á sjúklinga.
Ekki liggur fyrir hvort einhverjar upplýsingar hafi glatast eða hvaða áhrif bilunin hafði á sjúklinga. Vísir/GVA
Alvarleg bilun í varð í miðlægu tölvukerfi Landspítalans um klukkan 16 í dag. Bilunin hafði víðtæk áhrif á meira og minna öll tölvukerfi spítalans, þar á meðal klíníska kerfið sem heldur utan um allt það sem snýr að sjúklingum. Bilun varð í diskastæðum að sögn Jóns Baldvins Halldórssonar, upplýsingafulltrúa spítalans.

„Núna í kringum korter yfir fimm fóru kerfin svo að týnast inn aftur svo þetta er að komast í gagnið á nýjan leik. Það þarf náttúrulega að endurræsa þau meira og minna í kjölfar svona alvarlegrar bilunar,“ segir Jón Baldvin.

Hann segir viðbragðsáætlun hafa farið í gang á heilbrigðis-og upplýsingatæknideild sem sér um tölvukerfi spítalans. Þá hafi einnig verið virkjuð viðbragðsáætlun á öllum deildum spítalans vegna bilunarinnar.

„Það er eitthvað sem ekki hefur verið gert áður,“ segir Jón Baldvin. Aðspurður hvort að viðbragðsáætlanirnar hafi gengið vel segir hann svo hafa verið á heilbrigðis-og upplýsingatæknideild.

Jón segist ekki hafa ekki upplýsingar enn sem komið er hvernig viðbragðsáætlanir gengu á öðrum deildum en það verði kortlagt í kjölfarið. Ekki liggur fyrir hvort einhverjar upplýsingar hafi glatast eða hvaða áhrif bilunin hafði á sjúklinga.

„Nú snýst allt um að koma kerfinu í gang á ný þar sem þetta var auðvitað mjög alvarleg bilun.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×