Innlent

Missti allt í hruninu en vann tugi milljóna í lottó á laugardag

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lottópotturinn var áttfaldur seinasta laugardag.
Lottópotturinn var áttfaldur seinasta laugardag. Vísir
Í morgun kom kona á skrifstofu Getspár með annan tveggja vinningsmiða frá því síðasta laugardag en potturinn var þá áttfaldur.

Í tilkynningu frá Getspá segir að hún hafi verið heldur betur lukkuleg og ánægð en upphaflega ætlaði hún að spila í EuroJackpot. Það var hins vegar búið að loka fyrir söluna í þeim potti í Álfinum í Kópavogi svo hún notaði peninginn í staðinn til að kaupa sér tvær raðir í lottó.

„Í gær fór hún svo aftur í Álfinn til að versla og rakst þá á Lottómiðann í veskinu og lét renna honum í gegn. Vinningshljóð kom þegar miðanum var rennt í gegnum sölukassann og þá sagði konan „vei – ég á þá fyrir öðrum lottómiða“.  Afgreiðslumaðurinn leit á hana og sagði „ég held að þú ættir að setjast niður“ því næst rétti hann henni vinningsmiðann og undirstrikaði vinningsupphæðina sem var 54,8 milljónir,“ segir í tilkynningu Getspár.

Konan missti allt í hruninu og er búin að vera á leigumarkaðnum síðan. Hún ætlar því að nota peninginn í að kaupa sér hús og hund og svo ætlar hún í frí með fjölskylduna.

Getspá hvetur alla þá sem versluðu sér lottómiða í 10-11 við Kleppsveg að athuga með sinn lottómiða því sá vinningshafi frá laugardeginum hefur ekki enn gefið sig fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×