Lífið

Missti 65 kíló til að deyja ekki frá börnunum

Aðalheiður Lilja Hlynsdóttir var orðin 165 kíló og fór ört stækkandi. Vini hennar leist ekki á blikuna, náði að draga hana með sér í ræktina og ári síðar var hún búin að missa 65 kíló. Ísland í dag hitti Aðalheiði á dögunum.

„Þetta gerðist bara smátt og smátt. Ég var alltaf stór krakki, ég var alltaf mikil. Þegar ég var 16 ára var ég orðin 116 kíló. Þá tók ég þá ákvörðun að fara bara ekkert meira á vigtina,“ segir hún. „En þegar maður verður ófrískur þá neyðist maður til að fara í mæðraskoðanir og þá sleppur maður ekki við að verða vigtaður. Þá fær maður eiginlega sjokk.“

Þegar hún gekk með eldri dóttur sína var hún orðin 145 kíló og þegar hún gekk með yngri var hún orðin 150. Þegar hún átti yngri dóttur sína var hún orðin 165 kíló. „Ég bara hélt áfram að þyngjast,“ segir hún.

Alla var orðin 145 kíló þegar hún gekk með eldri dóttur sína. Þegar hún hafði átt þá yngri var hún búin að bæta á sig nokkrum í viðbót.Vísir
Reyndi að fara í ræktina

Aðalheiður segist hafa reynt einu sinni að fara í ræktina á þessum tíma á meðan hún var í fæðingarorlofi. Hún gekk inn í klefa og steig á vigtina. „Ég var svo viss um að ég væri búin að léttast þegar ég var búin að eignast 18 marka barn, ég hlyti að hafa misst einhver kíló en þegar ég sá að þau voru orðin 15 í viðbót þá bara snéri ég við og labbaði heim,“ segir hún.

Uppgjöf Öllu, eins og hún er alltaf kölluð, var orðin algjör og hún fann huggun undir sæng með súkkulaði og kók upp í sófa fyrir framan sjónvarpið. „Ekkert lítið súkkulaði, það var bara stórt, og snakk og svo var bara legið uppi í sófa og étið þangað til farið var að sofa,“ segir hún.

Alla lýsir því að allt hafi „Ég var komin með verk í hnén, ég var móð að labba upp stigann í vinnunni, ég gat ekki hlaupið á eftir krökkunum sem ég var að kenna og ég gat ekki leikið við stelpurnar heima,“ segir hún. „Bara að standa upp úr sófanum, það var erfitt. Ég þurfti alveg átak og þegar það þarf átak til að komast upp úr sófanum þá þarf maður að gera eitthvað.“

Páll Magnús segist hafa haft miklar áhyggjur af vinkonu sinni á þessum tíma.
Kynntist einkaþjálfara fyrir tilviljun

Alla kynntist einkaþjálfaranum Páli Magnúsi Guðjónssyni fyrir tilviljun án þess þó að vera í sérstökum hugleiðingum að taka líkamann í gegn. „Þegar við vorum búin að vera vinir í tvö, þrjú ár þá spyr hreinlega spyr hann mig einn daginn: „Hvað ætlar þú að lifa lengi Alla mín.“ Og ég skildi ekki alveg hvað hann átti við,“ segir hún. Páll sagði henni þá að hún færi ekki mikið yfir fertugt ef hún héldi áfram á sömu braut. 

„Það var sjokkið sem ég þurfti; að ég væri kannski að éta mig frá börnunum mínum,“ segir hún.

Páll Magnús segist hafa haft miklar áhyggjur af vinkonu sinni á þessum tíma. „Ég skaut því bara að henni að hún væri orðin of stór og hvað hún ætlaði að gera við líf sitt,“ segir hann. „Þetta stefndi bara á einn veg.“ Aðalheiður segist hinsvegar hafa verið í afneitun. 

„Vinkonur hennar tvær komu í tíma til mín, sem ég vissi að væru góðar vinkonur hennar. Ég fór heim eftir kennslu og ákvað að senda henni skilaboð á Facebook um hvar hún hefði verið, af hverju hún hefði ekki verið með þeim,“ segir hann. „Þarna fann ég veikan blett og ákvað bara að bjóða henni.“

Aðalheiður endaði á að koma í spinning tíma til Páls en síðan lét hún ekki sjá sig í tíu daga. „Ég fór bara inn á Facebook og spammaði hana. Ég bara setti inn á vegginn eftir hvern tíma, „Hvar varst þú“ og „Af hverju mættirðu ekki?“,“ segir hann. „Síðan bara mætti hún og er bara búin að mæta síðan.“

Páll segist ekki hafa átt von á því strax í upphafi að Alla myndi gefast upp.Vísir
Drekkur ennþá kók

Alla segist passa sig á öfgunum. „Ég borða allt. Ég borða hveiti og ég borða sykur. Ég borða allt. Ég er forfallinn „kókisti“. Ég er ekki hætt að drekka kók ennþá en ég leyfi mér það. Ég er að mæta í ræktina á hverjum degi og ég ætla ekki að verða einhver mjóna, ég vil bara vera hraust,“ segir hún og segist upplifa það í dag. 

Rúmum þremur mánuðum eftir að Alla fór að mæta reglulega í þrektíma hjá Palla fór árangurinn að koma í ljós. Hún segist hafa fundið til gamlar myndir til að sjá hver breytingin væri orðin. Hún segir það erfitt að skoða myndir frá því áður en hún fór að hreyfa sig. „En þetta er rosalega góð áminning. Að svona hafi maður virkilega verið og svona hafi maður leyft sér að verða án þess að hugsa neitt út í það,“ segir hún. 

Árangurinn kom á óvart


Páll segist ekki hafa átt von á því strax í upphafi að Alla myndi gefast upp. „Hún var ofboðslega stór. Hún var næstum því póstnúmer á Seltjarnarnesi, eins og hún segir sjálf,“ segir hann og hlær. „Manneskja sem er tæp 170 kíló, þetta er mikið sem þarf að bera. Auðvitað tók þetta á.“ Hann segir að erfiðustu sporin séu að mæta. 

Sjálf segist hún heldur ekki hafa átt von á þessum árangri þegar hún byrjaði þetta átak. „Ég var með þennan draum að komast undir hundrað kílóin,“ segir hún en bætir við að hún hafi ekki þorað að segja það upphátt nema við bestu vinkonur sínar.

Alla hefur aldrei varið jafn miklum tíma með dætrum sínum.
Finna mun á mömmu

Dætur Öllu finna ekki síst mun á mömmu sinni.„Þær finna aðallega muninn á því hvað ég er miklu skemmtilegri mamma. Hvað ég er hressari, hvað ég er þolinmóðari, hvað ég nenni að gera hlutina með þeim. Það er ekki lengur þannig að mamma kemur þreytt heim á daginn og þarf að leggja sig í sófanum,“ segir hún. „Við förum saman í ræktina, við förum saman í sund, við förum út að hjóla. Við gerum miklu, miklu fleiri hluti saman heldur en nokkur tíman áður.“

En er Aðalheiður ekki hrædd um að fara aftur í sama farið, fara aftur í 165 kílóin? „Jú það er alveg eitthvað sem er inni í manni en ég er svo þrjósk að ég ætla ekki að láta það gerast. Það fær ekki að gerast og það er bæði mín vegna og stelpnanna vegna,“ segir hún. 

„Ég ætla að fá að lifa með þeim eins lengi og ég get og vera til staðar fyrir þær. Þetta snýst ekki um það endilega að vera mjó og vera grönn. Þetta snýst um að fá að lifa og vera til.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×