Lífið

Missti 100 kíló og bað sinnar heittelskuðu eftir Reykjavíkurmaraþon

Atli Ísleifsson skrifar
Mieke van Berkel, unnusta Dirk, átti alls ekki von á að hann myndi biðja hennar í Lækjargötunni.
Mieke van Berkel, unnusta Dirk, átti alls ekki von á að hann myndi biðja hennar í Lækjargötunni. Mynd/Starfsmaður Reykjavíkurmaraþons
Hollendingurinn Dirk Peeters var einn þeirra sem hljóp sitt fyrsta maraþon í Reykjavíkurmaraþoni um síðustu helgi. Aðdragandinn var nokkuð langur hjá Dirk en einungis fimm ár síðan eru síðan hann var um 200 kíló og hugsunin um að ljúka heilu maraþoni virtist fjarstæður draumur.

Dirk lauk hins vegar kílómetrunum 42 skömmu eftir hádegi á laugardaginn þar sem hann bað kærustu sinnar, Mieke, sem beið eftir honum hjá endalínunni í Lækjargötunni.

Dirk segir í samtali við Vísi að þau skötuhjúin hafi aftur komið til Hollands á miðvikudag og hafi verið að njóta síðustu daga sumarfrísins. „Við höfum verið að hitta fjölskyldu og vini og segja þeim frá hvað gerðist í Reykjavík. Þetta er búið að vera frábært.“

Um 200 kíló og ákvað að taka sig á

Dirk segir að saga hans nái um fimm ár aftur þegar hann var orðinn allt of þungur og ákvað að gera eitthvað í sínum málum. „Ég byrjaði hjá einkaþjálfara, var orðinn um 200 kíló og ákvað að byrja að hreyfa mig og huga betur að mataræðinu. Á síðustu fimm árum hef ég misst um 100 kíló.

Einkaþjálfari minn, Bas, spurði mig þegar ég byrjaði hjá honum hvort ekki væri æðislegt ef ég gæti hlaupið maraþon eftir um fimm ár. Á þeim tíma var þetta í raun frekar fjarstæðukennd hugsun.“

Aldrei hafa fleiri hlaupið maraþon í Reykjavíkurmaraþoni en síðastliðinn laugardag.Mynd/Eyjólfur Garðarsson
Bað Mieke í markinu í Lækjargötu

Dirk segir að æfingarnar hafi hins vegar gengið betur og betur þegar á leið og á síðustu árum hafi hann meðal annars hlaupið nokkur hálfmaraþon, tekið þátt í þríþrautum og hjólakeppnum.

„Svo var farið að ganga það vel að það virtist raunhæft að geta klárað heilt maraþon. Ég æfði því mjög vel og fór að hugsa hver gæti verið rétta leiðin til að gera afrekið enn eftirminnilegra. Það var að sjálfsögðu ef ég ég myndi biðja kærustu minnar, Mieke, í markinu,“ segir Dirk, en þau Mieke kynntust fyrir um þremur árum.

Hann segist hafa spurt Mieke hvort hún hefði ekki áhuga á að fara með honum í sumarfrí til Íslands. „Hún var alveg til í það. Hún hljóp sjálf 10 kílómetra á laugardaginn og hvatti mig áfram þegar ég var búinn með 30 kílómetra og tók svo á móti mér í markinu.

Fyrst mátti hún ekki vera inni á svæðinu fyrir hlaupara sem voru að koma í mark, en ég spurði þá starfsmenn hlaupsins hvort hún mætti ekki koma inn þar sem ég hugðist biðja hennar. Það gekk eftir og Mieke sagði já.“

Hann segir Mieke þó ekki hafa átt von á að hann myndi biðja hennar. „Fyrstu viðbrögð hennar voru „Ekki gera þetta!“ og „Hvað ertu eiginlega að gera?“ en svo fór hún að gráta og ég held að ég hafi heyrt hana segja já,“ segir Dirk hlæjandi.

Mieke og Dirk nýtrúlofuð í Lækjargötunni.Mynd/Starfsmaður Reykjavíkurmaraþons
Hljóp fyrir látna vinkonu sína

Dirk segist upphaflega hafa ætlað sér að hlaupa heilt maraþon í Hollandi. „Ég ætlaði mér að hlaupa í Rotterdam sem er uppáhaldsborg mín auk þess að ég held með fótboltaliði borgarinnar, en maraþonið þar er of snemma á æfingatímabilinu.

Eftir það fór ég að hugsa um maraþonhlaupin í New York og Berlín, en þátttökugjaldið er mjög hátt og ég vildi tryggja að ég væri örugglega laus við meiðsli þegar kæmi að hlaupinu. Loks fór ég að husa að Reykjavíkurmaraþoni þar sem ég hef alltaf verið aðdáandi Íslands – náttúrunnar, þagnarinnar, fámennisins – auk þess að ég hafði aldrei komið þangað, “ segir Dirk sem þótti einnig spennandi tilhugsun að hlaupa maraþon í nyrstu höfuðborg heimsins.

Hollendingurinn segir að mikið hafi reynt á að hlaupa maraþonið og að hann hafi verið mjög tilfinningasamur fyrstu kílómetrana. „Ég hljóp til styrktar góðgerðarsamtaka þar sem ég missti vinkonu mína úr krabbameini á síðasta ári. Það voru margir hlauparar sem hlupu í treyjum merktum krabbameinssamtökum þannig að þetta var frekar erfitt til að byrja með. Ég var því ekki mjög einbeittur fyrst en eftir nokkra kílómetra komst ég í réttan gír.“

Hlaupaleiðin ekkert flöt í samanburði við Holland

Hollendingurinn segist hafa æft sig fyrir hlaupið þannig að hann myndi klára það á fimm klukkustundum. „Það var búið að segja við mig að hlaupaleiðin væri flöt, ef frá væru taldar einhverjar smábrekkur í kringum 15 og 20 kílómetra. Í samanburði við Holland er hins vegar enginn hluti hlaupaleiðarinnar í Reykjavík flöt,“ segir Dirk og hlær. Hann segist þó hafa verið mjög ánægður og þakklátur íbúum Reykjavíkur sem studdu hlauparana á leiðinni. Hann lauk hlaupinu á um rúmum fimm og hálfum tíma.

Dirk segir að hann hlaupið hafi orðið sérstaklega erfitt eftir 35 kílómetra. „Það gekk mjög vel fyrstu þrjátíu kílómetrana og hljóp ég allan tímann. Þar hvatti Mieke mig áfram og ég gekk með henni í um fimm mínútur. Eftir það hljóp ég í fimmtán til tuttugu mínútur og gekk í fimm til skiptis.“

Mynd/Eyjólfur Garðarsson
Æfði ræðuna síðusta kílómetrann

Þrátt fyrir að síðustu kílómetrarnir hafi verið erfiðir þá hafi sá allra síðasti verið mjög ánægjulegur, þar sem hann hafi hlaupið við hlið annarra hlaupara í sömu stöðu og hann. „Ég hljóp með trúlofunarhringinn allan tímann og sýndi nokkrum hlaupurum hann. Þeir sögðu að ég væri ruglaður en óskuðu mér alls hins besta. Ég hljóp frekar hægt þarna undir lokin þar sem ég var að undirbúa ræðuna mína og þeir hlógu allir að mér.“

Líttu upp í ljós verður spilað í brúðkaupinu

Dirk segir að eftir hlaupið hafi hann og Mieke leitað að laginu sem var flutt þegar ræst var í hlaupinu og komist að því að það var „Líttu upp í ljós“, nýjasta lag meistara Páls Óskars. „Við ætlum að spila að það brúðkaupinu okkar til að minnast ferðarinnar til Reykjavíkur.“

Hann segir að þau Mieke hafi enn ekki ákveðið giftingardag. „Kannski verður það sömu helgi og Reykjavíkurmaraþon fer fram að ári. En kannski vil ég hlaupa Reykjavíkurmaraþon aftur á næsta ári, en þá myndi ég vilja gera það sem eiginmaður Mieke, ekki unnusti.“

Fékk fjölmörg tækifæri til að biðja hennar á Íslandi

Dirk segir þau Mieke hafa dvalið á Íslandi í viku, frá miðvikudegi til miðvikudags. „Það var í raun það erfiðasta við þetta allt saman. Það gáfust svo mörg tilfelli til að biðja hennar. Við fórum Gullna hringinn, í Bláa lónið og víðar, en ég hugsaði nei, ég bíð þar til ég klára maraþonið.“

Dirk segir að hann og vinkona hans sem lést í desember í fyrra hafi upphaflega ætlað að hlaupa maraþon saman. „Þegar við ákváðum það var ekki vitað til þess að nokkuð amaði að henni, en síðar greindist hún með húðkrabbamein og lést í desember síðastliðinn. Þá breytti ég hugarfarinu og ákvað að fresta ekki þeim hlutum sem ég vil virkilega gera. Þú verður að gera það sem þú ætlar þér að gera sem allra fyrst, þar sem þessu gæti öllu lokið hvenær sem er.“

Að neðan má sjá myndband sem Dirk lét útbúa með einkaþjálfara sínum árið 2012 þar sem sjá má árangur Dirk fyrstu mánuðina eftir að hann ákvað að gera eitthvað í sínum málum.


Tengdar fréttir

Endaði alveg óvart í fyrsta sæti hlaupsins

Hrafnkell Hjörleifsson hljóp maraþon í fyrsta sinn á ævinni og var fyrstur Íslendinga í mark. Hann ætlar að leyfa sér pítsu og bjór til að fagna sigrinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×